„Nýjar upplýsingar“ og leitinni breytt

Leitað er nú á svæði á stærð við Portúgal.
Leitað er nú á svæði á stærð við Portúgal. AFP

Gögn úr ratsjám eru nú talin sýna að malasísku farþegaþotunni var vísvitandi flogið í átt að Andaman-eyjum við Indland. Samgöngumálaráðherra Malasíu staðfestir að búið sé að stækka leitarsvæðið vegna „nýrra upplýsinga“, segir í frétt Reuters um málið.

Síðdegis í dag verður vika liðin frá því að flugvélin hvarf með 239 manns um borð. Heimildarmenn Reuters segja að vélinni hafi verið flogið í átt að Andaman-eyjum í Indlandshafi. Hingað til hefur einkum verið leitað austur af Malasíu í Suður-Kínahafi, eða á því svæði þar sem síðast spurðist til vélarinnar. Andaman-eyjar eru í Indlandshafi og mun vestar en leitað hefur verið hingað til.

Í gær var sagt frá því í bandarískum fjölmiðlum að vélin hefði hugsanlega verið á flugi í fjóra tíma eftir að flugumferðarstjórn missti allt samband við hana. Þetta er m.a. byggt á því að gervitunglum bárust veik boð frá vélinni eftir að samband við hana slitnaði.

Malasísk flugmálayfirvöld segja að þau hafi síðast verið í sambandi við áhöfn vélarinnar rétt áður en hún fór inn í flugstjórnarsvæði Víetnam. Víetnömsk yfirvöld heyrðu aldrei frá vélinni.

Leitarsvæðið nú er um 92.700 ferkílómetrar eða á stærð við Portúgal. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert