Telja ESB ekki verja írska hagsmuni

Frá írska hafnarbænum Killybegs.
Frá írska hafnarbænum Killybegs. Wikipedia/Andreas F. Borchert

Samtök írskra sjómanna eru allt annað en sátt við samkomulag Evrópusambandsins, Norðmanna og Færeyinga um makrílveiðar til næstu fimm ára sem gengið var frá í vikunni. Telja samtökin að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi hvorki staðið vörð um hagsmuni írskra sjómanna með því að samþykkja samkomulagið né annarra sjómanna innan sambandsins.

Fram kemur á fréttavefnum Donegal Democrat að Samtök írskra sjómanna geti ekki stutt samkomulagið um makrílinn í ljósi þess að með því væri Færeyingar verðlaunaðir fyrir óábyrgar makrílveiðar á undanförnum árum og stóraukin hlutdeild tekin frá fyrir Ísland, Rússland og Grænland frá því sem áður hafi verið. Haft er eftir Sean O’Donoghue, formanni samtakanna, að ekki sé hægt að draga aðra ályktun af samkomulaginu en að óábyrg framganga Færeyinga hafi skilað sér sem skapi slæmt fordæmi til framtíðar í ljósi þess að flestir uppsjávarstofnar í Norðaustur-Atlantshafi séu deilistofnar. Grænlendingar hafi þegar tekið upp sömu hegðun.

Coveney varð undir innan ráðherraráðsins

„Ég tel að ástæðan fyrir því að við stöndum frammi fyrir þessari óásættanlegu stöðu þegar kemur að aflahlutdeild sé óskynsamleg framganga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem eina samningsaðilans fyrir hönd sambandsins í slíkum samningum. Núverandi sjávarútvegsstjóri, Maria Damanaki, hefur að mati samtakanna einangrað sig frá sjávarútveginum með því að neita að verja með fullnægjandi hætti hagsmuni sjómanna á Írlandi og annars staðar innan Evrópusambandsins. Þetta er þvert á stöðu mála hjá hinum strandríkjunum þar sem Norðmenn, Íslendingar, Færeyingar, Rússar og Grænlendingar verja sjávarútveg sinn af krafti,“ segir O’Donoghue.

Fyrir vikið hafi niðurstaðan orðið sú að Evrópusambandið hafi gefið eftir verðmæta hlutdeild í makrílstofninum sem írskir sjómenn hafi unnið að því að byggja upp undanfarin ár. Simon Coveney, sjávarútvegsráðherra Írlands, hafi barist af hörku gegn hærri aflahlutdeild til Færeyinga og Íslendinga en hann hafi hins vegar verið einn í þeirri baráttu í ráðherraráði Evrópusambandsins. Án baráttu hans hefði niðurstaðan þó orðið verri. Einkum með tilliti til gagnkvæms aðgengis að lögsögum.

Írland lítill fiskur í stórri tjörn innan ESB

Sama sjónarmið kemur fram hjá Martin Howley, formanni Samtaka sjómanna í Killybegs stærsta útgerðahafnarbæjar Írlands, á fréttavef írska dagblaðsins Irish Examiner. Hann segir að verkefni framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hafi verið að vernda makrílstofninn en samkomulagið, sem þýði verulega veiði umfram ráðgjöf, bendi til þess að Damanaki hafi viljað ná samningi hvað sem það kostaði.

„Ríkisstjórn okkar og Coveney sjávarútvegsráðherra börðust af hörku gegn þessu en þetta snýst allt um atkvæði á vettvangi Evrópusambandsins. Þýskaland hafði ekki áhuga á þessu og Bretland vildi aðeins binda endi á bannið á innflutningi á fiski frá Færeyjum. Írland er aðeins lítill fiskur í þessari tjörn. Við áttum aldrei möguleika. Við fáum aukna aflaheimild en við teljum þetta ekki vera gott samkomulag fyrir Írland,“ segir hann ennfremur.

Vilja að ESB beiti Grænland refsiaðgerðum

Þá segir í fréttinni að samtökin hafi kallað eftir því að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins beitti Grænland refsiaðgerðum vegna makrílveiða þeirra. Haft er eftir Coveney að þó hann væri mjög á móti ýmsum hlutum samkomulagsins á milli Evrópusambandsins, Norðmanna og Færeyja væri hann sammála því að mikilvægt væri að ná samkomulagi um makrílveiðarnar.

mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert