Blóðug átök í Kharkiv

Tveir létu lífið í átökum sem brutust út á milli stuðningsmanna Úkraínu og Rússlands í borginni Kharkiv í austurhluta Úkraínu í nótt. Fimm slösuðust en fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins að skotum hafi verið hleypt af.

Fylkingarnar saka hvora aðra um að bera ábyrgð á ofbeldisverkunum. Þau eru sögð hafa hafist á Svoboda-torgi borgarinnar í gærkvöldi en síðan hafi átökin færst yfir á skrifstofu hóps í borginni sem er hliðhollur úkraínskum stjórnvöldum. 

Að sögn sjónarvotta reyndu stuðningsmenn Rússa að brjóta sér leið inn í húsið þar sem úkraínsku stuðningsmennirnir höfðu lokað sig inni. Þá segjast sjónarvottar hafa heyrt skothvelli og að bensínsprengjum hafi verið kastað inn í húsið.

Hennadiy Kernes, borgarstjóri Kharkiv, greindi síðar frá því í úkraínskum fjölmiðlum að tveir hefðu látist og fimm slasast. 

Í gær funduðu stjórnvöld í Rússlangi og í Bandaríkjunum um neyðarástandið á Krímskaga í Úkraínu, en fundinum lauk án samkomulags. Á morgun fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla á svæðinum um það hvort Krímskagi eigi að ganga inn í Rússland. 

Rússar hafa heitið að virða niðurstöðu kosningarinnar. Bandarísk stjórnvöld segja hins vegar að um ólögmæta kosningu sé að ræða. 

Stjórnvöld í Moskvu hafa hert tökin á Krímskaga, sem er sjálfstjórnarsvæði, að undanförnu, en þau hafa sent hermenn á svæðið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert