Erfið leit orðin enn erfiðari

Fréttaskýrendur segja að nýjustu fregnir af leitinni að farþegavél Malaysia Airlines, sem hvarf fyrir viku, sýni fram á að erfið leit sé nú orðin enn erfiðari og flóknari. Forsætisráðherra Malasíu greindi frá því að vélinni hefði verið vísvitandi snúið við og að slökkt hefði verið á fjarskiptabúnaði hennar.

Najib Razak, forsætisráðherra landins, sagði á blaðamannafundi í dag að búið væri að stöðva leitar- og björgunaraðgerðir á Suður-Kínahafi í ljósi nýrra frétta. Aðgerðirnar munu nú beinast að áhöfn og farþegum vélarinnar.

Spurður hvort vélinni hefði verið rænt sagði hann að allt kæmi til greina án þess þó að staðfesta þær fregnir. 

Skömmu áður en blaðamannafundurinn hófst í Kuala Lumpur hóf lögreglan leit á heimili flugstjórans Zaharies Ahamds Shahs.

Razak greindi frá því á fundinum að það hefði verið vísvitandi slökkt á fjarskiptabúnaði flugvélarinnar rétt áður en vélin nálgaðist austurströnd Malasíu og því þykir ljóst að það hafi verið gert af mannavöldum.

Gögn frá gervihnöttum og úr ratsjám sýna fram á að vélin hafi í framhaldinu breytt um stefnu og er talið að vélin hafi verið á flugi í um sjö klukkutíma eftir þetta. 

Vélin hvarf fyrir viku. Hún var að fljúga frá Kuala Lumpur í Malasíu til Peking í Kína. Hún lagði af stað kl. 12:40 (16:40 að íslenskum tíma) að staðartíma sl. laugardag með 239 um borð.

Samkvæmt ratsjám malasíska hersins sneri vélin við eftir að sambandið rofnaði og flaug hún til norðvesturs. Um kl. 08:11 að malasískum tíma náði gervihnöttur að nema merki frá vélinni, eða rúmum sjö klukkustundum eftir hún hvarf. Herinn gat hins vegar ekki staðsett vélina með nákvæmum hætti að sögn ráðherrans.

Razak segir því tvennt koma til greina, í ljósi nýjustu upplýsinga. Hún hafi annaðhvort verið á leið norður sem liggur frá landamærum Kasakstans og Túrkmenistans í gegnum norðurhluta Taílands. Eða á leið suður sem teygir sig frá Indónesíu að suðurhluta Indlandshafs.

Najib Razak, forsætisráðherra Malasíu, ræddi við blaðamenn í dag.
Najib Razak, forsætisráðherra Malasíu, ræddi við blaðamenn í dag. AFP
Ættingja eins af farþegunum 239 sem voru um borð í …
Ættingja eins af farþegunum 239 sem voru um borð í vélinni, sést hér ræða við fjölmiðlamenn í Peking í dag. AFP
Margir fylgjast grannt með málinu sem er afar dularfullt.
Margir fylgjast grannt með málinu sem er afar dularfullt. AFP
Björgunar- og leitaraðgerðum á Suður-Kínahafi hefur verið hætt.
Björgunar- og leitaraðgerðum á Suður-Kínahafi hefur verið hætt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert