„Ég brenn allur að innan“

AFP

Síðustu orð Michael Lee Wilson þegar hann var tekinn af lífi í Oklahoma í janúar voru „Ég brenn allur að innan“. Síðustu orð hans féllu 12 sekúndum eftir að aftakan hófst. Það tók Dennis McGuire 26 mínútur að deyja í fangelsi í Ohio í sama mánuði. Í báðum tilvikum voru ný lyf notuð við aftökurnar.

Þeir sem voru viðstaddir aftöku McGuire hafa lýst því hversu kvalafullur dauðdaginn var. Hann hafi engst sundur og saman og reynt að ná andanum án árangurs.

Ein helsta ástæðan fyrir því að aftökum hefur fækkað í Bandaríkjunum undanfarin ár er hversu erfitt það er að útvega lyf til að nota við aftökur enda vilja flest lyfjafyrirtæki ekki að lyf þeirra séu notuð til þess að deyða fólk.

Vegna lyfjaskorts velta menn fyrir sér að taka gasklefa í notkun á ný

Í grein sem lögfræðingurinn og fyrrverandi blaðamaður New York Times, Raymond Bonner ritar í vefmiðilinn ProPublica er haft eftir forseta hæstaréttar Kaliforníuríkis að ólíklegt sé að þar verði dauðadæmdir fangar teknir af lífi á næstunni vegna skorts á lyfjum sem notuð eru við aftökur. Hvergi í Bandaríkjunum bíða jafn margir fangar á dauðadeild og þar. Því hefur ríkissaksóknari Kaliforníu stungið upp á því að gasklefar verði teknir í notkun á ný.

Það lyf sem einkum hefur verið notað við aftökur, pentobarbital, annaðhvort eitt og sér eða íblandað öðrum lyfjum, er illfáanlegt eftir að helsti framleiðandi þess danska lyfjafyrirtækið Lundbeck fékk að finna til tevatnsins er bresku samtökin Reprieve hófu að herja á stórfyrirtækið.

Reprieve hefur lengi barist gegn aftökum og yfirleitt hefur barátta þeirra beinst gegn minni fyrirtækjum. En árið 2011 var látið til skarar skríða gegn Lundbeck. Haft var samband við Lundbeck og forsvarsmönnum þess bent á að lyfið væri orðið eitt helsta tækið til að taka fólk af lífi í Bandaríkjunum. Þeir sögðu að Lundbeck væri alfarið á móti því að lyfið væri notað við aftökur. Það væri einkum notað gegn flogaveiki. Hins vegar gæti fyrirtækið ekki stjórnað því til hvers framleiðsla þeirra væri notuð eftir að það væri selt til lyfsala eða dreifingaraðila. En Reprieve gaf sig ekki og í hvert skipti sem fangi var tekinn af lífi með pentobarbital, framleiddu af Lundbeck, var gefin út fréttatilkynning þar að lútandi.

Barist á Facebook og Twitter

Andstæðingar dauðarefsinga tóku þátt í baráttunni gegn Lundbeck á samfélagsmiðlum eins og Twitter og Facebook. Hluthafar létu í sér heyra á aðalfundi, lífeyrissjóðir seldu hlut sinn í fyrirtækinu og Lundbeck féll á lista yfir bestu fyrirtæki Danmerkur úr sæti 17 í sæti 40.

Lundbeck lét undan þrýstingi og breytti dreifingarkerfi sínu á þann veg að pentobarbital var ekki selt til ríkja sem beittu aftökum. Eitthvað sem forsvarsmenn lyfjafyrirtækisins höfðu sagt ómögulegt.

Í hvert skipti sem ríki í Bandaríkjunum fundu leið til þess að útvega lyf sem notuð við aftökur greip Reprieve til sinna ráða. Krafðist þess að fá upplýsingar um framleiðendur lyfjanna á grundvelli upplýsingalaga og fengu fjölmiðla í lið með sér. Eða eins og lögmaðurinn Clive Stafford Smith, sem hefur unnið ötullega við að verja fanga sem eiga dauðadóma yfir höfði sér, segir: „Þú getur komið því til leiðar að þeim finnist ekki þess virði að heimila notkun lyfjaframleiðslu sinnar við aftökur.“

Lyfin koma frá ótilgreindum framleiðendum

En Texasríki sá við Reprieve því þar er neitað að veita upplýsingarnar. Þegar lögfræðingi var synjað um upplýsingar sem hann óskaði eftir á grundvelli upplýsingalaga fór hann með málið fyrir dóm og tapaði. Í kjölfarið fleiri ríki farið sömu leið og jafnvel breytt lögum sínum svo hægt sé að komast undan því að veita upplýsingarnar um framleiðendur lyfjanna.

Eftir að bandaríska lyfjafyrirtækið Hospira hætti að framleiða lyfjablönduna sem notuð var við aftökur í þeim 32 ríkjum Bandaríkjanna sem enn beita dauðarefsingum og Evrópusambandið bannaði útflutning á aftökulyfjum til þessara ríkja eru lyfin keypt af einhverjum ónafngreindum lyfjaframleiðendum og óljóst hvort þau standast þær kröfur sem gerðar eru til lyfja í Bandaríkjunum.

Við aftökur að undanförnu hefur lyfið pentobarbital verið notað en það er af flokki barbiturate lyfja sem slæva miðtaugakerfið. Lyfið getur haft slævandi áhrif en í stórum skömmtum er það banvænt.

Eitt þeirra ríkja sem hefur átt í vandræðum með lyf við aftökur er Missouri en það hefur ekki komið í veg fyrir að fjórir fangar voru teknir þar af lífi á þriggja mánaða tímabili, frá 20. nóvember til 26. febrúar sl. Ríkisstjórinn, Jay Nixon, frestaði þeim tveimur síðastnefndu tímabundið þar sem til stóð að notast eingöngu við svæfingalyfið propofol við aftökurnar og talið var hætta á að aftökurnar yrðu svo kvalafullar að þær stæðust ekki ákvæði stjórnarskrár. Eins hótaði Evrópusambandið refsiaðgerðum ef lyfið yrði notað við aftökur í Bandaríkjunum og koma þar með fyrir að hægt væri að selja það í þeim ríkjum Bandaríkjanna sem enn beita dauðarefsingum.

 Seldi mönnum aðgang að syninum

Einn þeirra er Allen Nicklasson sem var tekinn af lífi hinn 11. desember 41 árs að aldri. Hann var dæmdur til dauða fyrir þrjú morð sem hann framdi rúmlega tvítugur að aldri ásamt félaga sínum Dennis Skillicorn árið 1994.

Hann var tekinn af lífi með pentobarbital og tók aftakan átta mínútur, samkvæmt frétt AP fréttastofunnar. Nicklasson sýndi lítil viðbrögð við lyfinu og opnaði aldrei augun á meðan aftökunni stóð og lokaorðin voru engin. Síðasta máltíðin samanstóð af pitsu, appelsínusafa, gúmmíbjörnum og M&M. Enginn úr fjölskyldu hans né úr fjölskyldum fórnarlamba hans voru viðstaddir aftökuna.

Það er synd að segja að Nicklasson hafi alist upp við eðlilegar aðstæður. Móðir hans var veik á geði og starfaði sem nektardansmær. Hún var heróínfíkill og helsta fæða barnsins var Alpo hundamatur. Enginn faðir var til staðar en hún kom ítrekað með karlmenn heim sem hún sængaði hjá en oft fengu þeir að einnig aðgang að syninum. Var hann beittur ofbeldi af ýmsu tagi og örin voru bæði á líkama og sál. Móðir hans seldi hann ekki bara í kynlífsánauð heldur einnig fékk hún greitt fyrir að láta barnið slást við Doberman-hund.

Nicklasson var með tvískautaröskun (geðhvörf) og var sendur á milli upptökuheimila og geðdeilda á unglingsárunum. Um tvítugt var hann heimilislaus eiturlyfjafíkill. Hann var í meðferð þegar hann kynntist Dennis Skillicorn árið 1994 en Skillicorn var nýkominn úr fangelsi eftir ránsmorð. Þeir fóru ásamt þriðja manni í dópleiðangur í ágúst 1994 en þegar ferðinni lauk lágu þrjú í valnum. Þar á meðal maður sem bauð þeim aðstoð eftir að bíll þeirra bilaði.

Í viðtali við AP fréttastofuna árið 2009 lýsti hann morðunum og því hvernig á hann hafi runnið æði og hann fyllst sælu. Þarna hafi hann loks náð að hefna fyrir allt ofbeldið sem hann varð sjálfur fyrir sem barn. Skillicorn var tekinn af lífi árið 2009. Ekki er upplýst um hver framleiðir lyfið sem var notað við aftökuna.

Það var á nítjándu öld sem læknir í New York stakk upp á því að nota lyf við aftökur í stað þess að hengja dauðadæmda fanga. Það lágu ekki mannúðarsjónarmið að baki heldur að það væri einfaldlega ódýrari kostir. Ríki Bandaríkjanna tóku sér eina öld í að taka upp þennan hátt við aftökur en í dag er þetta sú aftökuaðferð sem notuð er í þeim ríkjum sem heimila dauðarefsingar.

Í flestum tilvikum hafa ríki notað lyfjablöndu sem samanstendur af þremur lyfjum, svæfingarlyfi sem lætur hinn dauðadæmda missa meðvitund, annað lyfið lamar þind og lungu svo hinn dæmdi getur ekki andað og það þriðja veldur því að viðkomandi deyr úr hjartastoppi. En vegna þess hversu erfiðlega hefur gengið að útvega lyfin hafa einhver ríki tekið upp nýjar lyfjablöndur með misjöfnum árangri líkt og dæmin sanna.

„Ég veit að ég hef drepið mann“

Einn þeirra fjölmörgu sem hafa tjáð sig opinberlega um aftökur er dr. Allen Ault en stýrði aftökum í Georgíu í Bandaríkjunum. Í þættinum Hardtalk á BBC lýsir hann starfi sínu. „Ég veit að ég hef drepið mann,“ sagði hann í þættinum og bætti við „ég fæ enn martraðir“.

Ault segir að aftökur eru morð að yfirlögðu ráði af verstu gerð og fylgi viðkomandi alla ævi. En hvað varð til þess að Ault, sem áður studdi dauðarefsingar, er nú einn helsti baráttumaður gegn þeim í Bandaríkjunum?

Jú, þetta byrjaði allt með stöðuhækkun en hann starfaði sem sálfræðingur hjá fangelsismálastofnun Georgíu. Stofnunin var valin til þess að hýsa aftökur ríkisins og Ault gerður að umsjónarmanni þeirra. Án þess að hafa nokkuð velt því sérstaklega fyrir sér hver afstaða hans sjálfs var í garð dauðarefsinga var hann allt í einu orðinn sá sem hafði umsjón með því að taka fólk af lífi.

Man hvert einasta smáatriði

Í Georgíu á þessum tíma voru flestir teknir af lífi í rafmagnsstólnum. Ault man hverja einustu stund og hvert einasta smáatriði frá þeim aftökum sem hann var viðstaddur. „Ég hef eytt ævinni í að sjá eftir hverri stund og hverju morði.“

En sú aftaka sem reyndist honum erfiðust var þegar Christopher Burger, sem var 17 ára gamall piltur sem var á mörkum þess að vera sakhæfur vegna geðrænna vandamála en hann hafði verið beittur alvarlegu kynferðislegu ofbeldi sem barn, var dæmdur til dauða fyrir aðild að hrottalegri nauðgun og morði á leigubílstjóra, samkvæmt frétt New York Times.

Burger var sautján ár á dauðadeild og að sögn Ault sá hann breytast úr vandræðaungling í þroskaðan mann sem menntaði sig í fangelsinu. Ault sagði í þættinum Hardtalk að það væri engin spurning um sekt Burgers - hann hafði framið skelfilegan glæp en hann iðraðist. „Síðustu orð hans við mig voru, gerið það fyrirgefið mér.“

„Ég sá hann hristast þegar rafstraumurinn fór í gegnum líkama hans. Höfuð hans skall aftur og síðan var algjör þögn... og ég vissi að ég hafði myrt enn eina manneskju.“

Hann nefnir annan morðingja til sögunnar, William Henry Hance, blökkumaður sem var dæmdur til dauða fyrir að myrða þrjár konur. Meirihluti þeirra sem sátu í kviðdóminum voru hvítir.

Einn þeirra blökkumanna sem sátu í kviðdóminum lýsti síðar kynþáttaníðinu sem hafði einkennt kviðdóminn. Einn kviðdómenda sagði til að mynda þegar verið var að ákveða refsingu Hance að með aftökunni myndi negrum fækka um einn.

Greindarvísitala Hance var svo lág að einhverjir sérfræðingar töldu að hann væri ekki sakhæfur. En þrátt fyrir það var hann dæmdur til dauða og það kom í hlut Allens Aults að stýra aftökunni. Þegar þáttastjórnandinn spyr Ault hvers vegna í ósköpunum hann hafi ekki hreinlega hætt. Ault segir að hann hafi að lokum gert það en það hafi verið of seint.

Ault lét af störfum árið 1995 og hefur síðan helgað líf sitt baráttunni gegn dauðarefsingum. En það eru ekki bara dauðarefsingar sem hann gagnrýnir heldur einnig það hverjir eru dæmdir til dauða og hverjir ekki. „Myrtu einhvern hvítan og það eru þrisvar sinnum meiri líkur á að vera dæmdur til dauða en ef þú myrðir svarta manneskju,“ segir Ault.

Í byrjun mars höfðu 1369 verið teknir af lífi í Bandaríkjunum frá árinu 1976 þegar dauðarefsingar voru heimilaðar á ný af hæstarétti í Bandaríkjunum. Dauðarefsingar eru heimilaðar í 32 ríkjum en víða hafa ekki farið fram aftökur árum saman.

Tvær aftökur fyrirhugaðar á næstu dögum

Rúmlega þrjú þúsund fangar eru á dauðadeildum í Bandaríkjunum, flestir í Kaliforníu. Þeim mun væntanlega fækka um tvo á næstu dögum því í Oklahoma á að taka Clayton Darrell Lockett, 38 ára, af lífi fyrir morð, nauðgun, mannrán og fleiri glæpi árið 1999. Eins verður Charles Frederick Warner, 46 ára, tekinn af lífi þann 27. mars fyrir að hafa myrt og nauðgað 11mánaða gamalli stúlku sem var dóttir unnustu hans. Warner var dæmdur til dauða fyrir morðið og í 75 ára fangelsi fyrir nauðgunina.

Bíða rúm sautján ár eftir aftökunni

Fjölmargar rannsóknir sýna að dauðarefsing er mun kostnaðarsamari fyrir skattgreiðendur í Bandaríkjunum heldur en lífstíðardómar, einkum vegna þess hversu langt áfrýjunarferlið er í réttarkerfinu. Til að mynda hefur Kaliforníuríki eytt um fjórum milljörðum Bandaríkjadala, rúmum 450 milljörðum króna, frá árinu 1978 til þess að fjármagna dauðarefsingakerfið en á sama tímabili hafa aftökurnar aðeins verið þrettán talsins, sú síðasta árið 2006. Að meðaltali hefur hver þeirra sem hefur verið tekin þar af lífi setið í rúm sautján ár á dauðadeild áður en aftakan sjálf fór fram.

Flestar dauðarefsingar og morð í sömu ríkjunum

Ef litið er til fjölda þeirra sem eru teknir af lífi þá eru áberandi flestir teknir af lífi í Texas og samkvæmt tölum frá bandarísku alríkislögreglunni frá því í árslok 2011 eru hvergi í Bandaríkjunum framin jafn mörg morð og í Suðurríkjunum. Eins eru 80% þeirra dauðarefsinga sem framkvæmdar eru í Bandaríkjunum í Suðurríkjunum. Á sama tíma eru fæst morð framin í Norðausturríkjunum og þar eru aftökur jafnframt sjaldgæfastar.

Fyrir nokkrum dögum samþykkti neðri deild þingsins í New Hampshire með miklum meirihluta atkvæða að endurskoða löggjöf ríkisins varðandi dauðarefsingar. Það er nú í höndum öldungadeildarinnar að taka ákvörðun um framhaldið en repúblikanar eru þar í meirihluta.

Einn fangi er á dauðadeild í ríkinu. Michael Addison, 33 ára, var dæmdur til dauða árið 2008 fyrir að hafa skotið lögregluþjón til bana sem reyndi að handtaka hann fyrir vopnað rán.

Ef Addison verður tekinn af lífi, sem allt bendir til að verði gert, verður hann fyrsti fanginn til þess að vera tekinn af lífi í New Hampshire frá árinu 1939 eða í 75 ár.

Ríkisstjórinn í New Hampshire, Maggie Hassan, segir að hún styðji endurskoðun laga um dauðarefsingar svo lengi sem það hafi ekki áhrif á dauðadóm yfir Addison. Í New Hampshire er heimild fyrir því í lögum að hengja dauðadæmda ef ekki er hægt að útvega lyf til að nota við aftökuna.

Alls hafa 1194 verið teknir af lífi með lyfjagjöf í Bandaríkjunum frá árinu 1976. 158 enduðu líf sitt í rafmagnsstólnum. 11 í gasklefanum og þrír voru hengdir og þrír voru leiddir fyrir aftökusveit.

Yfir 140 fangar látnir lausir eftir að hafa setið á dauðadeild saklausir

Mjög hefur dregið úr því að dauðarefsingu sé beitt í Bandaríkjunum. Á síðasta ári voru 80 dæmdir til dauða þar í landi og 77 árið á undan. Árið 1999 voru hins vegar 277 dæmdir þar til dauða.

Yfir 140 fangar, sem höfðu verið dæmdir til dauða frá árinu 1973, hafa verið látnir lausir vegna þess að í ljós hefur komið að þeir voru dæmdir saklausir.

Sá síðasti heitir Glenn Ford en hann hafði setið á dauðadeild í tæp 26 ár þegar hann var látinn laus á þriðjudag. Ford hafði setið á bak við lás og slá í þrjátíu ár fyrir morð sem hann framdi ekki. Dómurinn yfir honum byggði meðal annars á vitnisburði konu sem fyrir löngu síðan hefur viðurkennt að hafa borið ljúgvitni.

Þegar Ford var látinn laus sagðist hann vera hálf ringlaður. „ Synir mínir voru lítil börn þegar ég fór. Nú eru þeir fullorðnir feður,“ sagði Ford við fréttamenn sem biðu hans við fangelsishliðið. Þetta voru fyrstu orð hans sem frjáls manns í næstum þrjá áratugi.

Flestar aftökur í Kína og Íran

Þrátt fyrir að hér hafi að mestu verið fjallað um dauðarefsingar í Bandaríkjunum þá eru þau langt í frá það ríki sem tekur flesta af lífi en samkvæmt ársskýrslu Amnesty International fyrir árið 2012 voru Bandaríkin í fimmta sæti.

Flestar eru aftökurnar í Kína en ekki eru veittar upplýsingar um það opinberlega hversu margar þær eru á hverju ári. Í öðru sæti listans er Íran, Írak er í því þriðja og Sádi-Arabía er í fjórða sæti. Næst á eftir Bandaríkjunum koma Jemen og Súdan. Hér eru ekki tekin með ríki eins og Norður-Kórea enda nánast vonlaust að fá upplýsingar úr réttarkerfinu þar.

Þegar horft er á þennan lista verður að segja eins og er að Bandaríkin skera sig úr, bæði hvað varðar landfræðilega og réttarfarslega. En Brian Evans hjá Amnesty International, segir þetta ekki koma á óvart.

Í viðtali við National Geographic í fyrra segir hann að Bandaríkin séu sér á báti þegar kemur að refsingum. Hvergi í heiminum séu jafn margir í fangelsum, einangrun hvergi beitt jafn oft og þar og eins eru lífstíðardómar algengari þar en víðast hvar annars staðar á vesturlöndum.

Aftökur í 21 landi í fyrra

Samkvæmt National Geographic voru fangar teknir af lífi í 21 landi árið 2012 en áratug áður voru þær framkvæmdar í 28 löndum. Telur tímaritið að það sé almenn stefna í heiminum að fækka dauðarefsingum og jafnvel afnema þær enda rituðu ríflega helmingur þjóða heimsins, 111 lönd, undir ályktun Sameinuðu þjóðanna um að sameinast um að afnema dauðarefsingar í heiminum.

Á sama tíma og Sameinuðu þjóðirnar berjast gegn dauðarefsingum hrósar Júrí Fedotov, sem leiðir  fíkniefna- og afbrotamálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (UNODC) baráttu íranskra stjórnvalda gegn eiturlyfjasmygli. Í Íran eru þeir sem verða uppvísir af smygli á hálfu kílói eða meira af eiturlyfjum eru teknir af lífi fyrir glæp sinn.

Árið 2012 var lagt hald á 388 tonn af ópíum sem er um 72% þess ópíums sem lagt var hald á í heiminum það ár. „Þetta er mjög glæsilegt,“ segir Fedotov, í samtali við Reuters fréttastofuna. Vegna þess hversu margir eru teknir af lífi í Íran hafa lönd eins og Bretland og Danmörk hætt fjárhagsstuðningi við eiturlyfjaeftirlit UNODC í Íran. Fedotvo segir að ekki komi til greina að hætta stuðningi UNODC við eiturlyfjaeftirlit í Íran.

80-95 eiturlyfjasmyglarar teknir af lífi í ár

„Ég er ekki viss um að alþjóðasamfélagið yrði ánægt með það ef það gæti haft það í för með sér að allt þetta gríðarlega magn eiturlyfja sem Íran leggur hald á myndi flæða inn í Evrópu,“ segir hann en Íran og Afganistan deila landamærum og hvergi í heiminum er framleitt jafn mikið af ópíum og þar. Ópíum er undirstaðan í heróíni. Þann 21. febrúar sl. greindu Sameinuðu þjóðirnar frá því að 80 manns hið minnsta, jafnvel 95, hafi verið teknir af lífi í Íran það sem af er ári. Flestir þeirra voru teknir af lífi fyrir eiturlyfjasmygl.

Amnesty International hefur vakið athygli á því að í Írak hafi aftökum fjölgað mjög á undanförnum árum og samkvæmt upplýsingum frá Human Rights Watch var 151 tekinn af lífi þar í fyrra en 129 árið 2012. Árið 2010 voru aftökurnar átján talsins. Í janúar einum vorum 26 teknir þar af lífi fyrir hryðjuverkastarfsemi.

Andstæðingar dauðarefsinga eru hávær aðgerðahópur er í mörgum löndum ekki meirihluti fyrir því að afnema aftökur sem mögulega refsingu. Skiptir þar litlu þó bent sé á að glæpum virðist ekki fækka þrátt fyrir að dauðarefsing liggi við glæpnum.

Einn þeirra sem nýlega hefur verið tekinn af lífi í Bandaríkjunum er fjöldamorðinginn Joseph Paul Franklin en hann var tekinn af lífi í Missouri ríki þann 20. nóvember í fyrra. Franklin var dæmdur til dauða fyrir morð á gyðingi fyrir utan samkomuhús gyðinga árið 1977. Hann var einnig dæmdur fyrir átta morð til viðbótar en hann játaði á sig um 20 morð á þriggja ára tímabili á áttunda áratug síðustu aldar. Hann hefur einnig játað á sig fjölmörg önnur brot en í flestum tilvikum beindust glæpir hans að fólki af öðrum kynþætti en þeim hvíta og gyðingum.

Þeir sem banna morð eiga ekki að fremja morð sjálfir

Meðal fórnarlamba hans er klámútgefandinn, Larry Flynt, en hann bað bandarísk yfirvöld að þyrma lífi Franklins í grein sem birt var í október.

Franklin skaut Flynt fyrir utan dómshús í Georgíu árið 1978 en réttað var yfir Flynt þar vegna kláms. Franklin var aldrei ákærður fyrir árásina á Flynt sem hefur verið í hjólastól síðan þá.

Í grein sem Flynt ritaði í The Hollywood Reporter kemur fram að hann vilji lama Franklin en ekki drepa enda sé hann á móti dauðarefsingum. Hann segist hafa haft nægan tíma í hjólastólnum til þess að hugsa um þetta.

„Eins og þetta blasir við mér þá er helsta ástæðan á bak við dauðarefsingar hefnd, ekki réttlæti og ég tel að ríkisstjórnir sem banna morð eigi ekki að fremja morð sjálfar,“eru lokaorð Flynt í greininni sem birt var í október.

Michael Lee Wilson
Michael Lee Wilson
Dennis McGuire.
Dennis McGuire. HANDOUT
Rafmagnsstóll, sem notaður er við aftökur í Bandaríkjunum.
Rafmagnsstóll, sem notaður er við aftökur í Bandaríkjunum.
158 hafa verið teknir af lífi í rafmagnsstól í Bandaríkjunum …
158 hafa verið teknir af lífi í rafmagnsstól í Bandaríkjunum frá 1976 AFP
1194 hafa verið teknir af lífi með lyfjagjöf í Bandaríkjunum …
1194 hafa verið teknir af lífi með lyfjagjöf í Bandaríkjunum frá árinu 1976 AFP
pentobarbital
pentobarbital AF vefnum Change sem berst gegn dauðarefsingum
Allen Nicklasson
Allen Nicklasson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka