Kosning hófst í morgun á Krímskaga í Úkraínu, en kjósendur greiða atkvæði hvort þeir styðji sameiningu Krímhéraðs við Rússland eða aðskilnað frá Úkraínu.
Flestir reikna með að sameining við Rússland verði samþykkt. Þeir sem eru andsnúnir sameiningu ætla margir hverjir ekki að taka þátt í atkvæðagreiðslunni, m.a. vegna vegna þess að þeir telja hana ekki löglega. Í gær komu Rússar í veg fyrir að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktaði um atkvæðagreiðsluna.
Sextíu ár eru liðin frá því að forsætisnefnd Æðstaráðs Sovétríkjanna samþykkti tillögu Níkíta Khrústsjovs, þáverandi sovétleiðtoga, um að Rússland gæfi Úkraínu Krímskaga í tilefni af því að 300 ár voru liðin frá sameiningu landanna. Gjöfin vakti ekki mikla athygli í öðrum löndum á þessum tíma og þótti aðeins hafa táknræna þýðingu í ljósi þess að Úkraína var þá sovétlýðveldi og fátt benti til þess að Sovétríkin liðu undir lok. Það gerðist þó tæpum 40 árum eftir að gjöfin var ákveðin og nú er komið í ljós að hún gæti reynst miklu afdrifaríkari en nokkurn óraði fyrir.
Íbúar Krímar eru um 2,3 milljónir og skiptast í þrjá meginhópa: Úkraínumenn í norðurhlutanum, Rússa í suðurhlutanum og á milli þeirra eru tatarar sem tala tyrkneskt mál og eru múslímar. Samkvæmt manntali frá árinu 2001 eru Rússar um 58% íbúa Krímskaga, 24% Úkraínumenn og 12% eru tatarar.
Talið er að tatarar, stundum nefndir tartarar, séu nú yfir tíu milljónir og flestir þeirra búa í Rússlandi, Úkraínu, Póllandi, Búlgaríu og Kína. Í Rússlandi búa um 5,5 milljónir tatara, þar af tvær milljónir í Tatarstan.
Tatarar komu fyrst á Krímskaga á þrettándu öld og þeir stofnuðu furstadæmi þar um miðja fimmtándu öld. Þeir stjórnuðu Krím til ársins 1783 þegar skaginn var innlimaður í Rússland og Svartahafsfloti landsins kom sér upp bækistöð í hafnarborginni Sevastopol. Áætlað er að svonefndir Krím-tatarar séu nú alls um 650.000.
Jósef Stalín sakaði Krím-tatara um landráð og samstarf við þýska nasista í síðari heimsstyrjöldinni og lét flytja þá nauðuga frá skaganum til Úsbekistans árið 1944. Marga Krím-tatara dreymdi um að snúa aftur til heimahaganna við Svartahaf en það var ekki mögulegt fyrr en Sovétríkin liðu undir lok árið 1991. Síðan hafa um það bil 280.000 tatarar snúið aftur til Krímar og litlir kærleikar hafa verið með þeim og rússneska meirihlutanum á skaganum. Þegar þeir komu aftur höfðu Rússar komist yfir hús þeirra og margir tatarar hafa kvartað yfir því að þeir hafi verið beittir misrétti í Krím. Meðal annars hefur verið deilt um rétt þeirra til jarðnæðis.
Eftir að Úkraína fékk sjálfstæði árið 1991 þegar Sovétríkin liðu undir lok hélt landið yfirráðunum yfir Krím en gerður var samningur við Rússa um að þeir héldu herstöðinni í Sevastopol. Rússar undirrituðu yfirlýsingu árið 1994 þar sem þeir skuldbundu sig til að virða núverandi landamæri Úkraínu. Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar undirrituðu einnig yfirlýsinguna.
Krím hefur verið sjálfstjórnarlýðveldi innan Úkraínu og haft sitt eigið þing. Krím var einnig með eigin forseta í fyrstu en það embætti var lagt niður árið 1995, skömmu eftir að aðskilnaðarsinni og stuðningsmaður Rússlands var kjörinn í það með miklum meirihluta atkvæða. Krím er einnig með eigin forsætisráðherra sem stjórnvöld í Úkraínu hafa skipað. Forsetinn í Kænugarði skipar einnig sérstakan fulltrúa sinn í Krím.