Mamoru Samuragochi er fimmtugur, hann sagðist vera heyrnarlaust tónskáld. Hann varð ekki jafn frægur og þýski snillingurinn Beethoven, sem einnig missti heyrnina en samt ákaflega dáður í heimalandi sínu fyrir að láta ekki heyrnarleysið aftra sér og semja verk í klassískum stíl sem hlutu mikið lof. Hann hefur nú viðurkennt að hafa verið að blekkja og segist vera fullur iðrunar. „En ég heyri ekki vel,“ bætir hann samt við. „Það er engin lygi að ég þarf túlk sem kann táknmál.“
Raunverulegi höfundurinn var samverkamaður hans, Takashi Niigaki, hann segist nú viss um að Samuragochi sé alls ekki heyrnarlaus. Og sennilega geti hann ekki skrifað nótur. Svo langt hefur Samuragochi ekki gengið í játningum sínum en viðurkennir að Niigaki hafi átt mestan þátt í frægustu verkunum. En hrappurinn hótar samt að lögsækja Niigaki fyrir að rægja sig.
Sjálfur hefur Samuragochi, sem fæddist í Hiroshima, sagt að hann hafi byrjað að læra á píanó þegar hann var fjögurra ára og getað spilað verk eftir Beethoven þegar hann var tíu ára. En honum hafi ekki líkað aðferðirnar í tónlistarskólum og sé því sjálfmenntaður. Hann hafi farið að tapa heyrn vegna hrörnunarsjúkdóms og orðið alveg heyrnarlaus þegar hann var 35 ára; heyrnin hafi þó skánað síðustu árin. En sama ár vann hann mikinn sigur þegar hann „samdi“ tónlist við tölvuleikinn Resident Evil: Dual Shock Ver. og seinna við leikinn Onimusha: Warlords 2001. Í vikuritinu Time árið 2001 var hann kallaður „Beethoven stafrænu aldarinnar“.
Rætt var við Samuragochi og hann útskýrði list sína. „Ég hlusta á sjálfan mig,“ sagði hann. „Ef maður treystir innri vitund sinni um hljóð skapar maður eitthvað sem er sannara. Þetta er eins og að tjá sig með hjartanu. Heyrnarleysið varð mér Guðsgjöf.“
Samuragochi var kominn á skrið 2003, þá samdi hann sinfóníu í fyrsta sinn. Eitt frægasta verk Samuragochi (eða réttara sagt Niigaki) er sinfónía nr. 1, Hiroshima, metnaðarfullt verk um kjarnorkuárásina á borgina 1945. Einn af keppendum Japana í Sotsjí, skautadansarinn Daisuke Takahashi, notaði brot úr öðru verki Samuragochi, sónatínu fyrir fiðlu þegar hann dansaði.
Í fyrra var sýnd í Japan heimildarmynd sem kölluð var Lag sálarinnar: Tónskáldið sem missti heyrnina. Þar er m.a. sagt frá heimsókn Samuragochi til Tohoku-héraðs þar sem hann hitti fólk sem komst lífs af í jarðskjálftanum og flóðbylgjunni miklu 2011. Hann lofar lítilli stúlku sem missti móður sína að hann muni semja sálumessu um móðurina.
Áhorfendur tárfelldu og salan á diskum með tónlist Samuragochi tók kipp. Um 180 þúsund eintök hafa selst af Hiroshima-sinfóníunni hluti hennar varð hálfgerður þjóðsöngur. Hún var kölluð „sinfónía vonarinnar“ en klassísk tónlist nýtur mikilla vinsælda í Japan.
Fimmta febrúar sprakk blaðran. Japanskt götublað hafði farið að kanna mál Samuragochi sem fékk veður af því og sendi frá sér yfirlýsingu, viðurkenndi að hann hefði ekki samið mikið sjálfur. „Samuragochi þykir afar leitt að hann skuli hafa svikið aðdáendur sína og valdið öðrum vonbrigðum,“ sagði í henni.
Daginn eftir lýsti Niigaki, sem er kennari við frægan tónlistarskóla, samstarfinu ítarlega, hann hefði bundið enda á það í fyrra. Niigaki segist hafa verið orðinn áhyggjufullur síðustu árin og viljað hætta. En þá hafi Samuragochi hótað að fyrirfara sér.
Fyrstu árin hafi Samuragochi þóst vera heyrnarlaus en hætt því og þeir hafi talað saman á eðlilegan hátt. Niigaki segist hafa fengið á þessum 18 árum aðeins um 70.000 dollara, tæpar átta milljónir króna, í sinn hlut fyrir að semja yfir 20 verk. Tekjur Samuragochi munu hafa verið um sex milljónir dollara, um 677 milljónir króna og heiðurinn og frægðin féllu auðvitað honum í skaut.