Fimm ríkustu eiga 28,2 milljarða punda

Frá London
Frá London AFP

Eignir fimm ríkustu fjölskyldnanna í Bretlandi eru meira virði heldur en eignir 20% þeirra Breta sem verst standa. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu sem Oxfam-mannúðarsamtökin hafa birt. 20% bresku þjóðarinnar eru 12,6 milljónir. 

Meðal helstu baráttumála Oxfam er að berjast gegn fátækt í heiminum og segja þau að eitt af því sem breska ríkisstjórnin ætti að eyða orku í sé að berjast gegn skattsvikum og hvort koma eigi á auðlegðarskatti á þá allra ríkustu. 

Í skýrslu Oxfam, Tale of Two Britains, kemur fram að eignir þeirra 12,6 milljóna Breta sem eiga minnst nemi alls 28,1 milljarði punda sem þýðir að hver þeirra á eignir upp á 2.230 pund.

Samkvæmt lista Forbes nema eignir fimm fjölskyldna: hertogans af Westminster, Davids og Simonar Reuben, Hinduja-bræðranna, Cadogan-fjölskyldunnar og fjölskyldu Mikes Ashley sem meðal annars á Sports Direct, 28,2 milljörðum punda.

Gerald Grosvenor, sjötti hertoginn af Westminster, á gríðarlegar eignir í Lundúnum og víðar. Oxfam metur eignir hans á 7,9 milljarða punda sem er meira það sem 10% Breta eiga samanlagt.

Í Guardian er haft eftir Ben Phillips hjá Oxfam að misskiptingin sé alltaf að aukast í Bretlandi þar sem þeir ríkustu verða ríkari á sama tíma og milljónir fjölskyldna eru að berjast við að láta enda ná saman.

Rannsóknin á auðæfum Breta kemur í kjölfar fyrri skýrslu Oxfam þar sem fram kemur að 85 milljarðamæringar eiga svipaðar eignir og samanlagðar eignir helmings íbúa á jörðinni eða 3,5 milljarða jarðarbúa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert