Bakgrunnur farþega um borð í malasísku flugvélinni sem hvarf 7. mars sl. er nú til rannsóknar. Samkvæmt Sky hefur komið í ljós að flugvélaverkfræðingur var með meðal farþega.
Indversk yfirvöld neita getgátum um að ætlunin hafi verið að fremja hryðjuverk svipað þeim voru framin 11. september 2001 gagnvart Bandaríkjunum en nú gagnvart Indlandi.
Á vefnum Allt um flug kemur fram að sérfræðingar sem rannsaka hvarf malasísku farþegaþotunnar telja mögulegt að vélinni hafi verið flogið undir ratsjá í aðeins 5.000 feta hæð með sérstakri aðferð sem kallast „terrain masking“ sem flugherinn notast við meðal annars.
Í fréttum The Sydney Morning Herald kemur fram að ef vélinni var flogið undir ratsjá hefði hún léttilega getað flogið yfir einhver lönd án þess að koma fram á radar en sérfræðingar segja að hættulegt geti verið að fljúga stórri farþegaþotu með þeim hætti.
Samkvæmt fréttum breska dagblaðsins The Independent hafa malasísk stjórnvöld farið fram á að fá leyfi til að rannsaka þá kenningu hvort vélinni hafi verið flogið undir ratsjá til Afganistans, á bækistöðvar Talíbana við landamærin við norðurhluta Pakistan.
Þessar grunsemdir hafa vaknað eftir að í ljós kom að möguleiki sé á því að vélin hafi sent frá sér merki til gervitungls af jörðu niðri sem þýðir að hún hafi ekki endilega verið á flugi þegar gervihnötturinn Inmarsat-3 greindi merki frá vélinni tæpum 7 klukkutímum eftir að hún hvarf.
Utanríkisráðherra Indlands, Salman Khurshid, gefur lítið fyrir hugmyndir um að vélinni hafi verið rænt í þeim tilgangi að nota hana við hryðjuverk í indverskri borg.
Herlið Atlantshafsbandalagsins í Afganistan leitar nú vélarinnar þar og flugmálayfirvöld í Islamabad í Pakistan hafa lýst því yfir að vélin hafi ekki komið inn í ratsjár yfir Pakistan.
Farþeginn sem nú er til rannsóknar, Mohd Khairul Amri Selamat, er 29 ára og á samfélagsmiðlum hefur hann skrifað að hann starfi hjá svissnesku einkaflugfélagi. Það að hann sé menntaður flugvélaverkfræðingur þýðir að hann á að hafa næga tækniþekkingu til þess að eiga við tölvubúnað vélarinnar en ekki er víst að hann hafi þekkingu til þess að snúa vélinni við og að geta flogið Boeing 777-þotu.