Hvarf vélarinnar óskiljanlegt

Áströlsk yfirvöld munu taka við umsjón með leit að malasísku þotunni, að sögn forsætisráðherra Ástralíu, Tonys Abbotts. Er það gert að beiðni malasískra stjórnvalda. Flugvélar frá Ástralíu hafa tekið þátt í leitinni á stóru hafsvæði vestur af Ástralíu.

Ljóst varð um helgina að slökkt hefði verið vísvitandi á fjarskiptabúnaði þotunnar og henni snúið við. Najib Razak, forsætisráðherra Malasíu, staðfesti á fundi með blaðamönnum á laugardaginn að gervihnettir hefðu numið merki frá þotunni sex og hálfri klukkustund eftir að hún hvarf af ratsjánum. Nú þykir sennilegast að henni hafi annaðhvort verið flogið í norðvestur, í átt að Kasakstan, eða í suðvestur, í átt að Suðurskautslandinu.

Leit á Indlandshafi hefur verið hætt en indversk flugmálayfirvöld telja útilokað að þotan hafi flogið inn í indverska lofthelgi áður en hún hvarf. 

Í gær sögðu malasísk yfirvöld að síðustu orðin sem heyrðust frá flugstjórnarklefanum „allt í lagi, góða nótt“ hefðu fallið eftir að samskiptin við jörð (Aircraft Communications Addressing and Reporting System (ACARS)) höfðu verið vísvitandi aftengd. 

Á vef BBC kemur fram að þeir sem vinni að rannsókn á hvarfi þotunnar séu einnig að fara yfir upplýsingar um farþega hennar og starfsmenn sem komu að vélinni áður en hún fór í loftið föstudaginn 7. mars. 

Eins er verið að reyna að fá meiri upplýsingar úr eftirlitskerfum annarra ríkja sem flugvélin, með 239 innanborðs, geti hafa flogið yfir.

Um helgina leitaði lögreglan á Malasíu á heimilum flugmanna þotunnar en meðal annars var lagt hald á flughermi sem var á heimili flugstjórans, Zaharies Ahmads Shahs. Engar fregnir hafa hins vegar borist af því hvort rannsóknin á flugmönnunum hafi varpað nýju ljósi á afdrif farþegaþotunnar. Til viðbótar við húsleitirnar hefur lögreglan kannað fjölskylduaðstæður, andlegt heilsufar og aðra persónulega hagi mannanna beggja. AFP greindi jafnframt frá því að á facebooksíðu flugstjórans kæmi fram að hann væri svarinn andstæðingur ríkisstjórnarinnar í landinu, en aðeins nokkrum klukkutímum áður en þotan tók á loft var Anwar Ibrahim, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir samkynhneigð.

Zaharie og aðstoðarflugmaðurinn, Fariq Abdul Hamid, höfðu ekki sóst sérstaklega eftir því að vera saman í fluginu, að því er sagði í frétt AFP, og þykir því ólíklegt að þeir hafi skipulagt samsæri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert