Vladimír Pútín forseti Rússlands staðfesti í dag viðurkenningu Rússlands á Krímskaga sem „fullvalda og sjálfstæðu ríki“.
Þingið á Krímskaga lýsti formlega yfir sjálfstæði frá Úkraínu í dag, með ósk um að sameinast Rússlandi, í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu sem þar fór fram í gær. Yfirvöld á Krímskaga fullyrða að 97% kjósenda hafi greitt atkvæði með því að slíta tengslin við Úkraínu.
Opinber ákvörðun Rússa um að viðurkenna sjálfstæði lýðveldisins Krímskaga tekur gildi samstundis, samkvæmt yfirlýsingunni sem Pútín skrifaði undir í dag. Þar segir jafnframt að ákvörðun forsetans sé tekin „í ljósi yfirlýsts vilja almennings í þjóðaratkvæðagreiðslu á Krímskaga“.
Evrópusambandið, Bandaríkin og stjórnvöld í Úkraínu hafna niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar og segja hana ólöglega.