Dularfull örlög 239 manna

Beðið fyrir farþegum og áhöfnum flugs MH370.
Beðið fyrir farþegum og áhöfnum flugs MH370. AFP

Elsti farþeg­inn um borð í flug­vél Malaysia Air­lines sem hvarf er 76 ára gam­all, en sá yngsti 2 ára. Raun­ar eru, eða voru, fimm börn um borð sem ekki hafa náð 5 ára aldri. Alls er 239 manns saknað eft­ir að flug­vél­in hvarf, hvert þeirra með sína sögu að segja en enn er ekk­ert vitað um ör­lög þeirra.

227 farþegar og 12 starfs­menn voru um borð þegar flug MH370 fór í loftið frá Kuala Lump­ur á leið til Pek­ing. Hundruð ást­vina þeirra bíða nú í ang­ist eft­ir svör­um við ráðgát­unni um hvað gerðist eig­in­lega fyr­ir 11 dög­um þegar flug­vél­in hvarf skyndi­lega af rat­sjám.

Bak­grunn­ur allra um borð skoðaður vand­lega

Marg­ar kenn­ing­ar eru á lofti og rann­sak­end­ur hafa ekki getað úti­lokað flugrán, skemmd­ar­verk, sjálfs­víg flug­stjóra eða fjölda­morð. Unnið er að því að kanna bak­grunn allra um borð til að kom­ast að því hvort per­sónu­leg saga ein­hvers þeirra, and­leg vanda­mál eða teng­ing við hryðju­verk­a­starf­semi kunni að varpa ljósi á málið.

Banda­ríska frétta­stof­an CNN hef­ur safnað per­sónu­leg­um sög­um sumra farþeg­anna um borð. Tveir þriðju­hlut­ar farþeg­anna voru kín­versk­ir rík­is­borg­ar­ar, þar á meðal 19 lista­menn og 6 fjöl­skyldumeðlim­ir þeirra á leið heim frá skraut­skrift­ar­sýn­ingu í Kuala Lump­ur. 38 farþegar voru frá Malas­íu og aðrir frá 13 mis­mun­andi þjóðlönd­um.

Í um­fjöll­un á vef CNN kem­ur fram að í hópi þeirra var m.a. að finna verk­fræðinga, lista­menn, áhættu­leik­ara, búd­díska píla­gríma, fólk og leið í frí og aðra á leið til vinnu. Þau voru feður og mæður, börn, sálu­fé­lag­ar og vin­ir þeirra sem bíða heima.

Skildi eft­ir erfðagripi ef eitt­hvað kæmi fyr­ir

Paul Weeks er einn þeirra sem er saknað. Hann er Ný­sjá­lend­ing­ur og hafði nýþegið starf við námu­vinnslu í Mong­ól­íu. Hann skildi úrið sitt og gift­inga­hring­inn eft­ir heima sem erfðagripi fyr­ir syni sína tvo, „ef eitt­hvað skyldi koma fyr­ir“.

Eig­in­kona hans, Danica Weeks, seg­ir í sam­tali við CNN að það erfiðasta í þessu öllu sam­an sé að vita ekki hvað gerðist. Hún seg­ir að Paul hafi verið frá­bær faðir og eig­inmaður. „Hann var sterk­ur karakt­er. Hann var mér svo mikið. Hann var besti vin­ur minn og sálu­fé­lagi og ég get ekki beðið eft­ir að han komi aft­ur. Ég vona það. Ég vona.“

„Far­in til Kína!“

Tvenn áströlsk vina­hjón á sex­tugs­aldri voru um borð í flug­vél­inni á leið í frí sam­an. Cat­her­ine og Robert Lawt­on eru sögð ástríðufull­ir ferðamenn, for­eldr­ar þriggja dætra og amma og afi. Síðasta face­book­færsla Cat­her­ine var full til­hlökk­un­ar fyr­ir kom­andi ferðalagi: „Far­in til Kína!“

Með þeim í för voru Mary og Rod­ney Burrows. Þriðja barn þeirra var ný­flutt að heim­an og þau ætluðu nú að hefja nýtt og frjáls­ara tíma­bil í lífi sínu. Ferðalagið til Kína var skipu­lagt með árs fyr­ir­vara.

Sorg­in vík­ur fyr­ir reiði

List­mál­ar­inn Mao Xi­anquan var íá leið til Pek­ing til að sækja sýn­ingu á verk­um sín­um í Kína. Eig­in­kona hans, Hu, heyrði síðast í hon­um þegar hann var á leið um borð í vél­ina. Hún seg­ist eins og fleiri ekki aðeins vera sorg­mædd yfir hvarfi vél­ar­inn­ar held­ur einnig sí­fellt reiðari vegna þess að eng­in svör fá­ist.

Pu­spana­ht­an Su­bramaniam var ann­ar faðir um borð. Hann var sér­fræðing­ur í upp­lýs­inga­tækni og ferðaðist mikið vegna vinnu sinn­ar. Þegar hann lagði af stað í flug 370 héngu börn­in hans tvö í buxna­skálm­un­um og báðu hann að fara ekki. Su­bramaniam lofaði þeim að hann myndi færa þeim súkkulaði þegar hann kæmi aft­ur heim frá Pek­ing.

„Hann bar ábyrgð á öll­um í fjöl­skyld­unni. Meira að segja föt­un­um sem ég stend í,“ seg­ir faðir hans og afi barn­anna, Guru­sami Su­bramaniam. Hann seg­ist sjálf­ur hafa unnið í 20 ár sem ör­ygg­is­vörður til að geta greitt fyr­ir há­skóla­nám son­ar síns, svo hann gæti fengið góða vinnu og séð fyr­ir fjöl­skyld­unni.

„Hvar sem hann var í heim­in­um, þá hringdi hann alltaf heim. Einnu sinni í viku kom hann til að sjá okk­ur öll, stór­fjöl­skyld­una. Hann annaðist okk­ur öll.“

Enn von um að finna hana í heilu lagi

Wall Street Journal grein­ir frá því í dag að inn­an Banda­ríkja­stjórn­ar telji hátt sett­ir menn hugs­an­legt að farþeg­arn­ir hafi orðið fórn­ar­lömb hryðju­verkaæf­ing­ar og vél­inni hafi verið rænt sem hluti af til­raun til að kanna hvort hægt sé að láta farþega­flug­vél hverfa af rat­sjám.

Fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri CIA, Mike Mor­ell, seg­ir að þetta sé vissu­lega mögu­leiki en hann tel­ur ólík­legt að ein­hver myndi ráðast í aðgerðir af þess­ari stærðargráðu ein­göngu í til­rauna­skyni. „Ef þú næðir stjórn yfir flug­vél, þá mynd­irðu beita henni strax,“ seg­ir Mor­ell.

Varn­ar­málaráðherra Malas­íu, His­hammudd­in Hus­sein, seg­ir að þótt verið sé að kanna alla mögu­leika þá sé stærsta for­gangs­málið ein­fald­lega að finna flug­vél­ina og hann úti­lok­ar ekki að hún kunni að vera í heilu lagi.

„Sú staðreynd að ekk­ert neyðarboð barst, eng­in hef­ur gert kröfu um lausn­ar­gjald eða lýst ábyrgðinni á hend­ur sér, það þýðir að það er ennþá von,“ sagði His­hammudd­in á blaðamanna­fundi.

Var vél­inni lent heilu og höldnu?

Lyk­il­spurn­ing­in er sú hvort það sé virki­lega mögu­leiki að risa­stór farþegaþota full af fólki hafi getað horfið af rat­sjá, farið yfir alþjóðleg landa­mæri og lent heilu og höldnu án þess að nokk­ur viti af því.

Rat­sjár eru glopp­ótt­ar og því er mögu­legt að í lít­illi flug­hæð sé hægt að sleppa óséður. Að sögn CNN eru sér­fræðing­ar hins veg­ar ekki á einu máli um hvort það geti hafa gerst með flug MH370.

Kínverskir ættingjar farþega um borð í flugi MH370 fóru grátandi …
Kín­versk­ir ætt­ingj­ar farþega um borð í flugi MH370 fóru grát­andi af fundi með tals­mönn­um Malaysia Air­lines í Pek­ing í dag. AFP
Á alþjóðaflugvellinum í Kuala Lumpur hefur verið útbúinn veggur þar …
Á alþjóðaflug­vell­in­um í Kuala Lump­ur hef­ur verið út­bú­inn vegg­ur þar sem veg­far­end­ur geta skrifað fyr­ir­bæn­ir og hugg­un­ar­orð vegna flug­vél­ar­inn­ar sem hvarf. AFP
Fjölskyldur kínverskra farþega um borð í flugi MH370 biðu tíðinda …
Fjöl­skyld­ur kín­verskra farþega um borð í flugi MH370 biðu tíðinda á hót­eli í Pek­ing í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert