Elsti farþeginn um borð í flugvél Malaysia Airlines sem hvarf er 76 ára gamall, en sá yngsti 2 ára. Raunar eru, eða voru, fimm börn um borð sem ekki hafa náð 5 ára aldri. Alls er 239 manns saknað eftir að flugvélin hvarf, hvert þeirra með sína sögu að segja en enn er ekkert vitað um örlög þeirra.
227 farþegar og 12 starfsmenn voru um borð þegar flug MH370 fór í loftið frá Kuala Lumpur á leið til Peking. Hundruð ástvina þeirra bíða nú í angist eftir svörum við ráðgátunni um hvað gerðist eiginlega fyrir 11 dögum þegar flugvélin hvarf skyndilega af ratsjám.
Margar kenningar eru á lofti og rannsakendur hafa ekki getað útilokað flugrán, skemmdarverk, sjálfsvíg flugstjóra eða fjöldamorð. Unnið er að því að kanna bakgrunn allra um borð til að komast að því hvort persónuleg saga einhvers þeirra, andleg vandamál eða tenging við hryðjuverkastarfsemi kunni að varpa ljósi á málið.
Bandaríska fréttastofan CNN hefur safnað persónulegum sögum sumra farþeganna um borð. Tveir þriðjuhlutar farþeganna voru kínverskir ríkisborgarar, þar á meðal 19 listamenn og 6 fjölskyldumeðlimir þeirra á leið heim frá skrautskriftarsýningu í Kuala Lumpur. 38 farþegar voru frá Malasíu og aðrir frá 13 mismunandi þjóðlöndum.
Í umfjöllun á vef CNN kemur fram að í hópi þeirra var m.a. að finna verkfræðinga, listamenn, áhættuleikara, búddíska pílagríma, fólk og leið í frí og aðra á leið til vinnu. Þau voru feður og mæður, börn, sálufélagar og vinir þeirra sem bíða heima.
Paul Weeks er einn þeirra sem er saknað. Hann er Nýsjálendingur og hafði nýþegið starf við námuvinnslu í Mongólíu. Hann skildi úrið sitt og giftingahringinn eftir heima sem erfðagripi fyrir syni sína tvo, „ef eitthvað skyldi koma fyrir“.
Eiginkona hans, Danica Weeks, segir í samtali við CNN að það erfiðasta í þessu öllu saman sé að vita ekki hvað gerðist. Hún segir að Paul hafi verið frábær faðir og eiginmaður. „Hann var sterkur karakter. Hann var mér svo mikið. Hann var besti vinur minn og sálufélagi og ég get ekki beðið eftir að han komi aftur. Ég vona það. Ég vona.“
Tvenn áströlsk vinahjón á sextugsaldri voru um borð í flugvélinni á leið í frí saman. Catherine og Robert Lawton eru sögð ástríðufullir ferðamenn, foreldrar þriggja dætra og amma og afi. Síðasta facebookfærsla Catherine var full tilhlökkunar fyrir komandi ferðalagi: „Farin til Kína!“
Með þeim í för voru Mary og Rodney Burrows. Þriðja barn þeirra var nýflutt að heiman og þau ætluðu nú að hefja nýtt og frjálsara tímabil í lífi sínu. Ferðalagið til Kína var skipulagt með árs fyrirvara.
Listmálarinn Mao Xianquan var íá leið til Peking til að sækja sýningu á verkum sínum í Kína. Eiginkona hans, Hu, heyrði síðast í honum þegar hann var á leið um borð í vélina. Hún segist eins og fleiri ekki aðeins vera sorgmædd yfir hvarfi vélarinnar heldur einnig sífellt reiðari vegna þess að engin svör fáist.
Puspanahtan Subramaniam var annar faðir um borð. Hann var sérfræðingur í upplýsingatækni og ferðaðist mikið vegna vinnu sinnar. Þegar hann lagði af stað í flug 370 héngu börnin hans tvö í buxnaskálmunum og báðu hann að fara ekki. Subramaniam lofaði þeim að hann myndi færa þeim súkkulaði þegar hann kæmi aftur heim frá Peking.
„Hann bar ábyrgð á öllum í fjölskyldunni. Meira að segja fötunum sem ég stend í,“ segir faðir hans og afi barnanna, Gurusami Subramaniam. Hann segist sjálfur hafa unnið í 20 ár sem öryggisvörður til að geta greitt fyrir háskólanám sonar síns, svo hann gæti fengið góða vinnu og séð fyrir fjölskyldunni.
„Hvar sem hann var í heiminum, þá hringdi hann alltaf heim. Einnu sinni í viku kom hann til að sjá okkur öll, stórfjölskylduna. Hann annaðist okkur öll.“
Wall Street Journal greinir frá því í dag að innan Bandaríkjastjórnar telji hátt settir menn hugsanlegt að farþegarnir hafi orðið fórnarlömb hryðjuverkaæfingar og vélinni hafi verið rænt sem hluti af tilraun til að kanna hvort hægt sé að láta farþegaflugvél hverfa af ratsjám.
Fyrrverandi framkvæmdastjóri CIA, Mike Morell, segir að þetta sé vissulega möguleiki en hann telur ólíklegt að einhver myndi ráðast í aðgerðir af þessari stærðargráðu eingöngu í tilraunaskyni. „Ef þú næðir stjórn yfir flugvél, þá myndirðu beita henni strax,“ segir Morell.
Varnarmálaráðherra Malasíu, Hishammuddin Hussein, segir að þótt verið sé að kanna alla möguleika þá sé stærsta forgangsmálið einfaldlega að finna flugvélina og hann útilokar ekki að hún kunni að vera í heilu lagi.
„Sú staðreynd að ekkert neyðarboð barst, engin hefur gert kröfu um lausnargjald eða lýst ábyrgðinni á hendur sér, það þýðir að það er ennþá von,“ sagði Hishammuddin á blaðamannafundi.
Lykilspurningin er sú hvort það sé virkilega möguleiki að risastór farþegaþota full af fólki hafi getað horfið af ratsjá, farið yfir alþjóðleg landamæri og lent heilu og höldnu án þess að nokkur viti af því.
Ratsjár eru gloppóttar og því er mögulegt að í lítilli flughæð sé hægt að sleppa óséður. Að sögn CNN eru sérfræðingar hins vegar ekki á einu máli um hvort það geti hafa gerst með flug MH370.