Leit hafin á landi

AFP

Kínverjar eru byrjaðir að leita að þotu Malaysia Airlines, flugi MH370, á landi. Samkvæmt upplýsingum frá kínverskum stjórnvöldum hafa engin tengsl fundist við hryðjuverkamenn meðal kínverskra farþega vélarinnar sem hvarf af ratsjám með 239 um borð. Alls taka 26 þjóðir þátt í leitinni.

Yfirvöld í Kírgistan og Kasakstan sögðu í gær að þau hefðu ekki orðið vör við malasísku flugvélina sem hvarf aðfaranótt laugardags 8. mars á leið frá Kuala Lumpur til Peking. Nýjar upplýsingar hafa leitt í ljós að mögulegt er að vélin hafi flogið um lofthelgi Mið-Asíuríkjanna en einnig er talið mögulegt að henni hafi verið flogið yfir Indlandshaf, í átt að Ástralíu. Forsætisráðherra Ástralíu, Tony Abbott, tilkynnti í gær að þarlend stjórnvöld myndu leiða leitina að vélinni á hafsvæðinu við vesturströnd landsins.

Þrátt fyrir að margt sé á huldu um afdrif flugs MH370 gefa nýjar upplýsingar skýrari mynd af atburðarásinni þessa örlagaríku nótt. Vélin tók af stað frá Kuala Lumpur kl. 00.41, með 239 farþega innanborðs. Hálfri klukkustund síðar sendi samskiptabúnaður vélarinnar, ACARS, frá sér gögn í síðasta sinn en hann safnar m.a. upplýsingum um ástand vélarinnar og athafnir flugmannanna, að því er fram kemur í grein í Morgunblaðinu í dag.

Klukkan 01.19 kveður áhöfn vélarinnar flugumferðarstjórn í Malasíu er hún er við það að fljúga inn í lofthelgi Víetnam. „Allt í lagi, góða nótt“ eru síðustu orðin sem flugturninn nemur en það var líklega aðstoðarflugstjórinn, Fariq Hamid, sem lét þau falla, að sögn malasískra yfirvalda.

Slökkt á radarvaranum klukkan 01:21

Samkvæmt Richard Quest, fréttaritara CNN sem sérhæfir sig í flugmálum, hafa yfirvöld og rannsakendur ekki upplýst hvort flugstjórnaryfirvöld í Víetnam hafi verið í sambandi við vélina en ljóst er að kl. 01.21 er slökkt á radarsvara vélarinnar. Til að slökkva þarf aðeins að ýta á rofa, segir Quest, en frá þeim tíma sér flugumferðarstjórn aðeins blett á ratsjám og fær hvorki upplýsingar um hvaða vél er að ræða né á hvaða leið hún er.

Í kjölfarið hverfur Boeing 777-200-vélin af ratsjá flugstjórnaryfirvalda í Malasíu og kl. 01.37 berst ekki áætluð gagnasending frá ACARS-kerfinu, sem bendir til þess að slökkt hafi verið á því milli kl. 01.07 og 01.37. CNN hefur eftir Quest að þetta sé mikilvægt atriði, þar sem það krefjist kunnáttu að slökkva á kerfinu. Þá bæri það vott um útsjónarsemi ef um rán eða hryðjuverk væri að ræða, þar sem búnaðurinn sendir upplýsingar um allt sem gert er við vélina.

Flaug vélin í skugga annarrar?

Að sögn embættismanns innan malasíska flughersins sást vélin á hernaðarratsjá er hún flaug yfir eyjuna Pulau Perak í Malacca-sundi. Þá var hún komin langt af áætlaðri flugleið en enn er á huldu hvort henni var þá snúið norðvestur í átt að Bengalflóa eða suðvestur yfir Indlandshaf. Malasísk yfirvöld hafa nú afhent breskum og bandarískum yfirvöldum öll ratsjárgögn en CNN hefur eftir bandarískum heimildarmanni að sjónum sé aðallega beint að suðurleiðinni.

Á vefnum Allt um flug kemur fram að þeir sem rannsaka hvarf farþegaþotunnar athuga nú þann möguleika hvort vélin hafi nýtt sér aðra farþegaþotu og flogið undir skugganum á henni yfir Bengal-flóann og jafnvel lengra í lítilli flughæð til að koma ekki fram á ratsjá hersins.

Þetta kemur fram á indverska fréttamiðlunum The Hindu. „Sá sem flaug vélinni hafði greinilega mjög góða kunnáttu bæði á stjórntækjum vélarinnar og siglingatækjum og kunni að skilja ekki eftir sig slóð,“ segja yfirvöld. 

Hver forritaði breytingarnar?

Breytingin á flugáætlun vélarinnar var forrituð inn í tölvu flugvélarinnar samkvæmt frétt New York Times. Segir í blaðinu að það hafi væntanlega verið gert af einhverjum sem var í flugstjórnarklefa vélarinnar. Þetta ýtir undir trú margra sem koma að rannsókninni á að vélinni hafi verið snúið við af ráðnum hug.

Um er að ræða tölvu sem nefnist  Flight Management System og stýrir hún flugvélinni á milli ákveðinna hnita sem gefin eru upp áður en lagt er af stað í flugið.

Ekki er vitað hvort átt var við tölvuna áður en vélin fór í loftið eða á meðan hún var á flugi.

Ráðgátan um flug MH370
Ráðgátan um flug MH370
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert