Semja um hús Hemingways

Kúba og Bandaríkin ná ekki saman um margt en þrátt fyrir stirð samskipti hafa þau þó staðið saman að því að varðveita sem safn hús Ernests Hemingways í nágrenni Havana.

Hemingway bjó í Havana á 5. og 6. áratugnum í bænum San Francisco de Paula, rétt fyrir utan Havana. Þar skrifaði hann sum frægustu verk sín, s.s. Hverjum bjallan glymur og Gamli maðurinn og hafið.

Hemingway hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1954. Hann svipti sig lífi árið 1961, skömmu eftir að hann flutti aftur til Bandaríkjanna.

Fyrir rúmum áratug gerðu Bandaríkin og Kúba með sér samning um að varðveita hús Hemingways, Finca Vigia, sem safn og sá samningur var endurnýjaður á dögunum. 

Í febrúar veittu Kúbverjar Bandaríkjunum í fyrsta sinn aðgang að yfir 2.000 skjölum sem varðveitt eru í húsinu. Þar á meðal er símskeytið sem sænska nóbelsakademían sendi Hemingway árið 1954 til að tilkynna honum nafnbótina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert