Forseti Úganda, Yoweri Museveni, hefur samþykkt að hitta sérfræðinga bandarískra stjórnvalda til að ræða harðneskjulega lagasetningu landsins gegn samkynhneigðum.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði frá þessu í dag þegar hann tók á móti bandarískum háskólastúdentum og fjölmiðlamönnum í ráðuneytinu. Hann sagði markmið sérfræðinganna sem sendir verða til Úganda að ræða við Museveni um það hvernig aðgerðir þeirra stangist á við vísindi og staðreyndir.
„Hann bauð okkur velkomin og sagði: „Ég fagna því að fá þá í heimsókn svo við getum rætt málin.“ Og það er einmitt það sem við ætlum að gera,“ sagði Kerry.
Museveni skrifaði í síðasta mánuði undir nýja lagasetningu gegn samkynhneigð, einhverja þá hörðustu í heimi. Samkvæmt þeim mega samkynhneigðir „síbrotamenn“ eiga von á því að vera dæmdir í lífstíðarfangelsi. Þá er samkvæmt lögunum ætlast til þess að almenningur tilkynni yfirvöldum ef grunur vaknar um samkynhneigð samborgara þeirra.
Kerry hefur líkt lagasetningunni við lögin gegn gyðingum sem sett voru á tímum nasista í Þýskalandi.