Vesturlönd fordæma aðgerðir Rússa

KAY NIETFELD

Fjölmargir leiðtogar vestrænna ríkja hafa í dag fordæmt aðgerðir rússneskra stjórnvalda á Krímskaga. Vladímír Pútín, forseti Rússlands, og Vladímír Konstantinov, forseti héraðsþingsins á Krímskaga, skrifuðu í morgun undir formlegt samkomulag um að héraðið verði hluti af rússneska sambandsríkinu. Vestræn ríki viðurkenna mörg hver ekki innlimun héraðsins og hafa hótað að beita rússnesk stjórnvöld bæði efnahagslegum og pólitískum refsiaðgerðum.

Mikill meirihluti íbúa Krímskaga samþykkti í atkvæðagreiðslu á sunnudaginn að segja sig úr lögum við Úkraínu og sameina héraðið Rússlandi.

„Við fordæmum aðgerðir Rússa að formlega innlima Krímskaga,“ sagði Jay Carney, talsmaður Hvíta hússins, við fjölmiðla í dag. Bandarísk stjórnvöld hafa þegar samþykkt refsiaðgerðir gegn Rússum en Carney sagði að „fleiri væru á leiðinni“.

Brjóti í bága við stjórnarskrána

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sagði að atkvæðagreiðslan á sunnudag bryti í bága við stjórnarskrá Úkraínu. Bandarísk stjórnvöld, sem og alþjóðasamfélagið, myndu aldrei viðurkenna hana. Hann hefur boðað G7-ríkin, sem eru sjö stærstu iðnríki heims, á fund í hollensku borginni Haag í næstu viku til að ræða ástandið sem komið er upp í deilunni.

Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, hótaði því að beita Rússa frekari refsiaðgerðum, bæði efnahagslegum og pólitískum, létu þeir ekki af aðgerðum sínum á Krímskaga. Hann sagði að aðgerðir þeirra væru ekkert annað en „landtaka“. John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tók í sama streng.

Kosningin ólögmæt

Í sameiginlegri yfirlýsingu Hermans Van Rompuys, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins (ESB), og Joses Manuels Barrosos, forseta framkvæmdastjórnar sambandsins, sagði að ESB myndi aldrei viðurkenna þá „ólöglegu“ og „ólögmætu“ kosningu sem fram fór á sunnudaginn. „Evrópusambandið viðurkennir ekki og mun ekki viðurkenna innlimun Krím og Sevastopol í rússneska sambandsríkið,“ segir í yfirlýsingunni.

Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, er afar áhyggjufullur yfir áhrifum atkvæðagreiðslunnar. Hann hefur skorað á deiluaðila að koma í veg fyrir að ofbeldi verði beitt og að þeir vinni að því að draga úr spennunni á svæðinu. Heppilegast sé að setjast að samningsborðinu.

Líkti aðgerðum Rússa við aðgerðir nasista

Héraðsstjórnin á Krímskaga braut alþjóðalög þegar hún lýsti yfir sjálfstæði sínu, að mati Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Hin „svokallaða“ atkvæðagreiðsla hafi einnig verið ólögmæt. Þau Obama ræddu saman í síma í dag og lýstu bæði yfir miklum áhyggjum af ástandinu.

Þá líkti Oleksandr Turchynov, settur forseti Úkraínu, aðgerðum rússneskra stjórnvalda við aðgerðir nasista á sínum tíma. „Í dag er Pútín að fylgja í fótspor fasista tuttugustu aldarinnar,“ sagði hann við fjölmiðla.

William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, greindi breska þinginu frá því í dag að bresk stjórnvöld væru hætt allri tvíhliða hernaðarsamvinnu við Rússland. Hann sagði að sameiginlegum heræfingum flota Rússlands, Frakklands, Bretlands og Bandaríkjanna hefði verið frestað um óákveðinn tíma.

Francois Hollande, forseti Frakklands, kallaði í dag eftir viðbrögðum leiðtoga Evrópuríkja við aðgerðum Rússa. „Frakkar viðurkenna hvorki úrslit atkvæðagreiðslunnar á Krímskaga 16. mars né innlimun úkraínska héraðsins í Rússland,“ sagði hann í yfirlýsingu.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur sagt það mikilvægt skref að Bandaríkin og Evrópusambandið hafi nú gripið til þvingunaraðgerða til stuðnings Úkraínu.

„Alþjóðasamfélagið þarf að senda skýr skilaboð til stjórnvalda í Rússlandi. Ísland getur á grundvelli EES-samningsins tekið þátt í aðgerðum ESB,“ var haft eftir honum í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu í gær.

Samþykktu refsiaðgerðir gegn Rússum

Leiðtogar Evrópusambandsins og Bandaríkjanna tilkynntu í gær refsiaðgerðir gegn ráðamönnum í Rússlandi. Evrópusambandið hefur kyrrsett eignir þrettán rússneskra embættismanna og átta úkraínskra ráðamanna í Krím. Þeir hafa einnig verið settir í farbann. Refsiaðgerðir Bandaríkjamanna felast meðal annars í því að eignir ráðamannanna í Bandaríkjunum verði kyrrsettar og þeir muni ekki geta stundað viðskipti við bandaríska aðila.

Stjórnvöld í Japan tilkynntu síðan í dag fyrirætlanir sínar um að beita Rússland refsiaðgerðum. Þau hafa í hyggju að hætta viðræðum við Rússland um greiðara flæði fólks á milli ríkjanna og ætla ekki að hefja viðræður um nýjan viðskiptasamning eins og til hafi staðið.

Sama á við um viðræður um samninga um geimmál og hernaðarmál.

Úkraínskir hermenn í borinni Sevastopol á Krímskaga.
Úkraínskir hermenn í borinni Sevastopol á Krímskaga. VIKTOR DRACHEV
FILIPPO MONTEFORTE
ANATOLII STEPANOV
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert