Vesturlönd fordæma aðgerðir Rússa

KAY NIETFELD

Fjöl­marg­ir leiðtog­ar vest­rænna ríkja hafa í dag for­dæmt aðgerðir rúss­neskra stjórn­valda á Krímskaga. Vla­dímír Pútín, for­seti Rúss­lands, og Vla­dímír Konst­ant­in­ov, for­seti héraðsþings­ins á Krímskaga, skrifuðu í morg­un und­ir form­legt sam­komu­lag um að héraðið verði hluti af rúss­neska sam­bands­rík­inu. Vest­ræn ríki viður­kenna mörg hver ekki inn­limun héraðsins og hafa hótað að beita rúss­nesk stjórn­völd bæði efna­hags­leg­um og póli­tísk­um refsiaðgerðum.

Mik­ill meiri­hluti íbúa Krímskaga samþykkti í at­kvæðagreiðslu á sunnu­dag­inn að segja sig úr lög­um við Úkraínu og sam­eina héraðið Rússlandi.

„Við for­dæm­um aðgerðir Rússa að form­lega inn­lima Krímskaga,“ sagði Jay Car­ney, talsmaður Hvíta húss­ins, við fjöl­miðla í dag. Banda­rísk stjórn­völd hafa þegar samþykkt refsiaðgerðir gegn Rúss­um en Car­ney sagði að „fleiri væru á leiðinni“.

Brjóti í bága við stjórn­ar­skrána

Barack Obama, for­seti Banda­ríkj­anna, sagði að at­kvæðagreiðslan á sunnu­dag bryti í bága við stjórn­ar­skrá Úkraínu. Banda­rísk stjórn­völd, sem og alþjóðasam­fé­lagið, myndu aldrei viður­kenna hana. Hann hef­ur boðað G7-rík­in, sem eru sjö stærstu iðnríki heims, á fund í hol­lensku borg­inni Haag í næstu viku til að ræða ástandið sem komið er upp í deil­unni.

Joe Biden, vara­for­seti Banda­ríkj­anna, hótaði því að beita Rússa frek­ari refsiaðgerðum, bæði efna­hags­leg­um og póli­tísk­um, létu þeir ekki af aðgerðum sín­um á Krímskaga. Hann sagði að aðgerðir þeirra væru ekk­ert annað en „land­taka“. John Kerry, ut­an­rík­is­ráðherra Banda­ríkj­anna, tók í sama streng.

Kosn­ing­in ólög­mæt

Í sam­eig­in­legri yf­ir­lýs­ingu Herm­ans Van Rompuys, for­seta leiðtogaráðs Evr­ópu­sam­bands­ins (ESB), og Joses Manu­els Barrosos, for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar sam­bands­ins, sagði að ESB myndi aldrei viður­kenna þá „ólög­legu“ og „ólög­mætu“ kosn­ingu sem fram fór á sunnu­dag­inn. „Evr­ópu­sam­bandið viður­kenn­ir ekki og mun ekki viður­kenna inn­limun Krím og Sevastopol í rúss­neska sam­bands­ríkið,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ing­unni.

Ban Ki-moon, aðal­rit­ari Sam­einuðu þjóðanna, er afar áhyggju­full­ur yfir áhrif­um at­kvæðagreiðslunn­ar. Hann hef­ur skorað á deiluaðila að koma í veg fyr­ir að of­beldi verði beitt og að þeir vinni að því að draga úr spenn­unni á svæðinu. Heppi­leg­ast sé að setj­ast að samn­ings­borðinu.

Líkti aðgerðum Rússa við aðgerðir nas­ista

Héraðsstjórn­in á Krímskaga braut alþjóðalög þegar hún lýsti yfir sjálf­stæði sínu, að mati Ang­elu Merkel, kansl­ara Þýska­lands. Hin „svo­kallaða“ at­kvæðagreiðsla hafi einnig verið ólög­mæt. Þau Obama ræddu sam­an í síma í dag og lýstu bæði yfir mikl­um áhyggj­um af ástand­inu.

Þá líkti Oleks­andr Turc­hynov, sett­ur for­seti Úkraínu, aðgerðum rúss­neskra stjórn­valda við aðgerðir nas­ista á sín­um tíma. „Í dag er Pútín að fylgja í fót­spor fas­ista tutt­ug­ustu ald­ar­inn­ar,“ sagði hann við fjöl­miðla.

William Hague, ut­an­rík­is­ráðherra Bret­lands, greindi breska þing­inu frá því í dag að bresk stjórn­völd væru hætt allri tví­hliða hernaðarsam­vinnu við Rúss­land. Hann sagði að sam­eig­in­leg­um heræf­ing­um flota Rúss­lands, Frakk­lands, Bret­lands og Banda­ríkj­anna hefði verið frestað um óákveðinn tíma.

Franco­is Hollande, for­seti Frakk­lands, kallaði í dag eft­ir viðbrögðum leiðtoga Evr­ópu­ríkja við aðgerðum Rússa. „Frakk­ar viður­kenna hvorki úr­slit at­kvæðagreiðslunn­ar á Krímskaga 16. mars né inn­limun úkraínska héraðsins í Rúss­land,“ sagði hann í yf­ir­lýs­ingu.

Gunn­ar Bragi Sveins­son ut­an­rík­is­ráðherra hef­ur sagt það mik­il­vægt skref að Banda­rík­in og Evr­ópu­sam­bandið hafi nú gripið til þving­un­araðgerða til stuðnings Úkraínu.

„Alþjóðasam­fé­lagið þarf að senda skýr skila­boð til stjórn­valda í Rússlandi. Ísland get­ur á grund­velli EES-samn­ings­ins tekið þátt í aðgerðum ESB,“ var haft eft­ir hon­um í til­kynn­ingu frá ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu í gær.

Samþykktu refsiaðgerðir gegn Rúss­um

Leiðtog­ar Evr­ópu­sam­bands­ins og Banda­ríkj­anna til­kynntu í gær refsiaðgerðir gegn ráðamönn­um í Rússlandi. Evr­ópu­sam­bandið hef­ur kyrr­sett eign­ir þrett­án rúss­neskra emb­ætt­is­manna og átta úkraínskra ráðamanna í Krím. Þeir hafa einnig verið sett­ir í far­bann. Refsiaðgerðir Banda­ríkja­manna fel­ast meðal ann­ars í því að eign­ir ráðamann­anna í Banda­ríkj­un­um verði kyrr­sett­ar og þeir muni ekki geta stundað viðskipti við banda­ríska aðila.

Stjórn­völd í Jap­an til­kynntu síðan í dag fyr­ir­ætlan­ir sín­ar um að beita Rúss­land refsiaðgerðum. Þau hafa í hyggju að hætta viðræðum við Rúss­land um greiðara flæði fólks á milli ríkj­anna og ætla ekki að hefja viðræður um nýj­an viðskipta­samn­ing eins og til hafi staðið.

Sama á við um viðræður um samn­inga um geimmál og hernaðar­mál.

Úkraínskir hermenn í borinni Sevastopol á Krímskaga.
Úkraínsk­ir her­menn í bor­inni Sevastopol á Krímskaga. VIKT­OR DRACHEV
FIL­IPPO MONTEFORTE
ANATOLII STEPANOV
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert