David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, segir að G7-ríkin, sem eru sjö stærstu iðnríki heims, verði að ræða það á fundi sínum í næstu viku hvort reka eigi Rússland úr hópi G8-ríkjanna, sem eru átta stærstu efnahagsveldi heims.
Hann segir það vel koma til greina að vísa Rússum á brott ef þeir láta ekki af aðgerðum sínum á Krímskaga.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur boðað G7-ríkin á fund á mánudag og þriðjudag í næstu viku í hollensku borginni Haag. Aðeins eitt fundarefni er á dagskrá: Ástandið á Krímskaga eftir þjóðaratkvæðagreiðlsuna seinasta sunnudag.
Mikill meirihluti íbúa á Krímskaga samþykkti þá að segja sig úr lögum við Úkraínu og sameina héraðið Rússlandi. Leiðtogar vestrænna ríkja hafa fordæmt aðgerðir Rússa og segjast ekki ætla að viðurkenna úrslit kosninganna.
Í ræðu á breska þinginu í dag lýsti Cameron yfir miklum áhyggjum af stöðunni á Krím. Vesturlönd þyrftu að bregðast strax við og að reka Rússa úr hópi G8-ríkjanna væri ein leið sem kæmi vel til greina.
Rússar hafa tilheyrt félagsskap G8-ríkjanna síðan árið 1997.
William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í gær að bresk stjórnvöld hefðu ákveðið að hætta allri tvíhliða hernaðarsamvinnu við Rússland. Hann sagði jafnframt að heræfingum flota Rússlands, Frakklands, Bretlands og Bandaríkjanna hefði verið frestað tímabundið.