Stoltenberg næsti framkvæmdastjóri NATO?

Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs.
Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs. VEGARD GROTT

Jens Stoltenberg, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, kemur til álita sem næsti framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), ef marka má fregnir norskra fjölmiðla.

Anders Fogh Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra Danmerkur, mun láta af embætti framkvæmdastjóra NATO á leiðtogafundi samtakanna í september næstkomandi og er leitin að eftirmanni hans hafin.

Stoltenberg hefur ekki viljað tjá sig um orðróminn við norska fjölmiðla í dag. Fullyrt er að leiðtogar margra vestrænna ríkja, svo sem Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, vilji fá Stoltenberg í embættið.

Hins vegar hafa sumir fréttaskýrendur bent á að ólíklegt sé að Norðmaður verði valinn eftirmaður Dana í embættið. Þá sé Stoltenberg heldur enginn sérstakur áhugamaður um utanríkis- og hernaðarmál.

Þeir sem eru einnig líklegir til að taka við embættinu eru þeir Philip Hammond, varnarmálaráðherra Bretlands, Radoslaw Sikorski, utanríkisráðherra Póllands, og Franco Frattini, fyrrverandi utanríkisráðherra Ítalíu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert