Sarkozy rýfur þögnina

Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands.
Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands. VALERY HACHE

Nicolas Sarkozy, fyrrverandi forseti Frakklands, rauf í dag þögn sína í fyrsta sinn síðan hann lét af embætti forseta í maí árið 2012. Í opnu bréfi mótmælir hann því sem hann hefur mátt reyna vegna símahlerana fjölmiðla og líkir því við persónunjósnir Stasi í Austur-Þýskalandi. Hann segir að grundvallarhugsjónir franska lýðveldisins séu í húfi.

Bréfið birtist í blaðinu Le Figaro sem kemur út á morgun en það ber yfirskriftina: „Það sem ég vil segja við Frakka“.

Sarkozy hefur mátt sæta fjölmörgum ásökunum um glæpsamlega hegðun og spillingu á þeim fimm árum sem hann var í embætti, frá 2007 til 2012. Til dæmis eru uppi ásakanir um að Sarkozy hafi fjármagnað forsetaframboð sitt árið 2007 að hluta til með fimmtíu milljóna evra geriðslu frá Moamer Kadhafi, fyrrum einræðisherra Líbíu.

Eins eru uppi ásakanir um að hann hafi notfært sér auðæfi Lilliane Bettencourt, sem er erfingi L'Oreal og ríkasta kona Frakklands, þegar hún var of veikburða til að átta sig á því hvað hún var að gera. Bettencourt er 91 árs gömul.

Samtöl forsetans tekin upp án hans vitneskju

Þá fréttist það í byrjun mánaðarins að hann hefði látið ýmislegt flakka um menn og málefna án þess að hafa hugmynd um að aðstoðarmaður hans, Patrick Buisson, hafði með leynd tekið upp fundi og einkasamtöl hans.

Franskir fjölmiðlar hafa birt hluta af upptökunum.

Í bréfinu segir Sarkozy það vera skyldu sína að rjúfa þögnina. Hann segir að grundvallarhugsjónir lýðveldisins séu fótum troðin án þess að nokkur segi neitt.

„Ég sá það fyrst í fjölmiðlum að allir símar mínir hefðu verið hleraðir í átta mánuði,“ segir hann í bréfinu. Dómarar hlusti á samtöl sín við áhrifamikla einstaklinga á stjórnmálasvæðinu, bæði í Frakklandi sem og víða um heim, og símtöl sín við lögfræðinginn sinn hafi verið tekin upp án þess að nokkur skammist sín fyrir það. 

„Þetta er allt afritað og það er auðvelt að ímynda sér fyrir hverja það er gert,“ nefnir hann.

Eins og í Austur-Þýskalandi

Sarkozy segist hafa vitað að dómsmálaráðherrann vissi ekkert um málið þrátt fyrir allar þær fjölmörgu skýrslur sem hann hafi óskað eftir og fengið. Innanríkisráðherrann hafi einnig ekki vitað neitt um málið þó svo að tugir lögreglumanna gerðu lítið annað en að rannsaka það. 

„Þannig er málum nú háttað að allir þeir sem hringja í mig vita að þeir eru hleraðir. Þið sjáið það í fjölmiðlunum. Þetta er ekki frásögn af hinni mögnuðu mynd Lífi annarra sem fjallar um Austur-Þýskaland og aðgerðir Stasi. Þetta eru ekki aðgerðir einræðisherra gegn andstæðingum sínum. Þetta er Frakkland,“ segir hann.

Vill ekki blanda sér aftur í stjórnmálin

Hann segist þó enn hafa trú á réttarríkinu. Hann hafi aldrei krafist þess að verða settur yfir lögin en geti hins vegar ekki sætt sig við það að á honum sé traðkað.

Orðrómur hefur verið uppi um að Sarkozy stefni á endurkomu í frönsk stjórnmál. Hann sóttist eftir endurkjöri sem forseti árið 2012 en beið lægri hlut fyrir Francois Hollande, núverandi forseta Frakklands.

Í bréfinu segir hann aftur á móti að hann hafi „engan áhuga“ á að blanda sér að nýju í frönsk stjórnmál.

Gilles-William Goldnadel, lögmaður Patrick Buissons, sem er talinn hafa tekið …
Gilles-William Goldnadel, lögmaður Patrick Buissons, sem er talinn hafa tekið upp fundi og einkasamtöl Sarkozy. MARTIN BUREAU
Nicolas Sarkozy og eiginkona hans, Carla Bruni-Sarkozy.
Nicolas Sarkozy og eiginkona hans, Carla Bruni-Sarkozy. MARTIN BUREAU
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert