ESB semur um samstarf við Úkraínu

AFP

Forystumenn Evrópusambandsins hafa undirritað samning um nánari samvinnu við Úkraínu en ákvörðun fyrri stjórnvalda í landinu um að undirrita ekki slíkan samning við sambandið var neistinn sem leiddi til mótmælanna í landinu sem hófust í nóvember síðastliðinn og urðu að lokum til þess að ríkisstjórn þess fór frá völdum.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að undirritun samningsins sé einkum ætlað að vera pólitísk stuðningsyfirlýsing við nýja ríkisstjórn Úkraínu. Haft er eftir Arsenij Jatsenjúk, forsætisráðherra Úkraínu, að um sögulegan áfanga sé að ræða. Úkraínumenn vildu verða hluti af Evrópusambandinu og samningurinn væri fyrsta skrefið á þeirri vegferð.

Hins vegar segir í fréttinni að samningurinn sem undirritaður hafi verið sé ekki sami samningur og fyrri ríkisstjórn Úkraínu hafi neitað að undirrita. Margt sem verið hafi í fyrri samningnum verði ekki tekið fyrir fyrr en eftir forsetakosningarnar í landinu í maí. Þá hafi Evrópusambandið lýst yfir vilja til að gera hliðstæða samninga við Georgíu og Moldóvu í sumar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert