Stjórnarskrárdómstóll í Taílandi hefur úrskurðað þingkosningarnar sem fram fóru í landinu í febrúar ógildar. Ástæðan er sú að kosningarnar voru haldnar á mismunandi dögum eftir landshlutum. Óeirðir sem áttu sér stað á kjördag urðu til þess að á sumum stöðum í landinu var ákveðið að fresta kosningunum um nokkra daga. Meirihluti dómstólsins taldi þetta brjóta gegn stjórnarskrá landsins.
Boðað var til hinna ógildu kosninga í desember sl. Var það forsætisráðherra landsins, Yingluck Shinawatra, sem var að verki en hún ætlaði með þeim að binda enda á pólitískan óstöðugleika í landinu.
Mótmælendur hafa í langan tíma krafist þess að skipuð verði þjóðstjórn í landinu til þess að koma í gegn grundvallarbreytingum á kosningakerfi landsins áður en þingkosningar verði haldnar. Stærsti stjórnarandstöðuflokkur landsins, Lýðræðisflokkurinn, hvatti fólk til þess að sniðganga nýafstöðnu þingkosningarnar, sem nú hafa verið úrskurðaðar ógildar.