„Villibörn“ fundust í París

Fjölbýlishúsið í La Coneuve hverfinu í Seine-Saint-Denis þar sem börnin …
Fjölbýlishúsið í La Coneuve hverfinu í Seine-Saint-Denis þar sem börnin fundust AFP

Fjögur börn, það elsta sex ára og það yngsta tveggja mánaða, fundust nýverið í fjölbýlishúsi í úthverfi Parísar en börnin höfðu aldrei farið út úr íbúð fjölskyldunnar.

Mikið er fjallað um málið í frönskum fjölmiðlum en fyrst var greint frá þessu á frönsku útvarpsstöðinni RTL í gær.

Það voru starfsmenn Félagsmálastofnunar sem fundu börnin í síðasta mánuði í íbúð fjölskyldunnar í La Coneuve-hverfinu (sem er í Seine-Saint-Denis). Tvö eldri börnin gátu varla talað eða gengið. Börnin voru öll læst inni í herbergi í íbúðinni þegar starfsmenn Félagsmálastofnunar komu þangað.

Börnin eru tveggja mánaða, tveggja ára, fimm ára og sex ára. Allt bendir til þess að þau hafi aldrei farið út fyrir veggi íbúðarinnar frá fæðingu og herma fjölmiðlar að þau séu í raun „villibörn“.

Nágrannar fjölskyldunnar voru þrumu lostnir þegar fréttir bárust af börnunum. Enginn þeirra virðist hafa vitað af börnunum og fólk sem Le Parisien ræddi við hafði aldrei orðið vart við hljóð frá íbúðinni.

Börnin höfðu aldrei komið í skóla eða leikskóla og þau höfðu aldrei farið til læknis. Þau voru öll alvarlega vannærð og sváfu öll á dýnum á gólfi í herbergi íbúðarinnar.

Málið komst til kasta yfirvalda í síðasta mánuði er móðirin, sem er 27 ára gömul, kom með yngsta barnið á sjúkrahús. Barnið var við slæma heilsu og létu starfsmenn sjúkrahússins félagsmálayfirvöld vita af grunsemdum sínum um vanrækslu.

Samkvæmt fréttum fjölmiðla eru báðir foreldrar, faðirinn er 33 ára, atvinnulausir en fengu barnabætur. Ekkert bendir til þess að börnin hafi verið beitt líkamlegu né kynferðislegu ofbeldi. Allt frá því að börnin fundust hafa foreldrarnir verið í haldi lögreglu og eiga þau yfir höfði sér ákæru fyrir vanrækslu. Börnin eru komin í fóstur.

Frétt Le Figaro

Einungis nokkrir dagar eru síðan fjölskyldufaðir, sem lokaði eiginkonu sína og fjögur börn þeirra í  Saint- Nazaire í Loire-Atlantique inni í þrjú ár, var dæmdur í fimm ára fangelsi, þar af þrjú ár skilorðsbundið. Kona hans var dæmd í þriggja ára skilorðsbundið fangelsi og bæði misstu þau forræði yfir börnunum.

Upp komst um innilokun fjölskyldunnar í ársbyrjun í fyrra og í ljós kom að fjölskyldan, hjón og börn á aldrinum 14, 17, 19 og 20 ára, höfðu verið í algjörri einangrun frá árinu 2010 en nágrannar þeirra héldu að konan og börnin væru flutt þar sem einungis fjölskyldufaðirinn fór út úr húsi. Samkvæmt frétt Le Figaro beitti faðirinn börnin ofbeldi af ýmsu tagi og tók móðirin þátt í því að hluta.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka