Ráðist inn í herstöð á Krímskaga

Frá Belbek herstöðinni
Frá Belbek herstöðinni AFP

Rússnesk hersveit réðst inn í úkraínsku herstöðina Belbek, við borgina Sevastopol á Krímskaga, í dag. Hermennirnir keyrðu niður hlið herstöðvarinnar á brimvörðum bifreiðum og skutu úr hríðskotabyssum út í loftið eftir að úkraínskir hermenn á herstöðinni neituðu að gefast upp.

Að minnsta kosti einn úkraínskur hermaður slasaðist í árásinni. 

Fréttamaður AFP var á staðnum og sagði hann árásarmennina hafa miðað byssum sínum að úkraínsku hermönnunum, sem allir voru óvopnaðir. Að því loknu var myndavél sem beinist að inngangi herstöðvarinnar gerð óvirk.

Á heimasíðu herstöðvarinnar sagði fyrr í dag að hermönnum þar hefðu verið settir úrslitakostir frá rússneskum hersveitum, þ.e. að annaðhvort myndu þeir leggja niður vopn sín og gefast upp eða búa sig undir árás. 

Í síðustu viku skutu stuðningsmenn Rússlands úkraínskan hermann til bana á sömu herstöð.

Fyrr í dag réðust um tvö hundruð stuðningsmenn Rússlands inn í herstöð úkraínska flughersins við bæinn Novofedorivka á Krímskaga. Hópurinn var óvopnaður en braut allt og bramlaði að sögn fréttamanns AFP sem er á staðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert