Forsætisráðherra Tyrklands staðfesti í dag að tyrkneskar herþotur hefðu skotið niður sýrlenska orrustuvél sem flaug inn í lofthelgi Tyrklands.
Sýrlenska vélin var á flugi yfir landamærum Tyrklands og Sýrlands þar sem hún skaut á uppreisnarmenn sem reyndu að ná yfirráðum yfir landamærastöð Sýrlands við Tyrkland.
Forsætisráðherra Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, hrósaði tyrkneska hernum fyrir aðgerðir sínar og ítrekaði að brugðist yrði harkalega við ef hersveitir Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, færu inn fyrir tyrkneska lofthelgi.
Í yfirlýsingu frá sýrlenskum stjórnvöldum sagði að aðgerðir Tyrkja hefðu verið óþarflega harkalegar og bæru merki um stuðning forsætisráðherrans við sýrlensk hryðjuverkasamtök. Þá sagði að flugmaður vélarinnar hefði náð að skjóta sér út áður en vélin hrapaði til jarðar.
Á síðasta ári skutu tyrkneskar orrustuvélar niður sýrlenska þyrlu sem hafði farið um tvo kílómetra inn á tyrkneska lofthelgi.
Í júní 2012 var tyrknesk orrustuvél skotin niður af sýrlenskum hersveitum en í kjölfarið lýstu tyrknesk stjórnvöld því yfir að litið yrði á allar hernaðaraðgerðir við landamærin sem ógnun.