Stjórnlagadómstóll Spánar komst að þeirri niðurstöðu í dag að fyrirhugað þjóðaratkvæði í Katalóníu-héraði, um það hvort héraðið á að lýsa yfir sjálfstæði eða ekki, samrýmist ekki stjórnarskrá landsins.
Fram kemur í frétt AFP að stjórnarskráin heimilaði ekki að mati dómaranna í málinu einstökum héruðum Spánar að boða einhliða til þjóðaratkvæðis um samband þeirra við landið. Stjórnvöld í Katalóníu stefna að þjóðaratkvæði um sjálfstæði héraðsins frá Spáni á næsta ári. Spænskir ráðamenn hafa alfarið lagst gegn þeim áformum.