Tóku síðasta úkraínska skipið

Rússneskir hermenn marsera í hafnarborginni Sevastopol á Krímskaga.
Rússneskir hermenn marsera í hafnarborginni Sevastopol á Krímskaga. AFP

Rússneskir hermenn réðust um borð í síðasta úkraínska herskipið á Krímskaga sem flaggaði fána Úkraínu. Um var að ræða vopnaðan togara sem ber heitið Cherkasy. Áður höfðu rússneskir hermenn tekið með valdi herskipið Kostyantyn Olshanskiy. Þetta kom fram í tilkynningu frá úkraínska varnarmálaráðuneytinu í dag.

Fram kemur í frétt AFP að rússnesk herskip hafi komið í veg fyrir að úkraínsku skipin gætu komist undan samkvæmt tilkynningunni. Þar sagði ennfremur að áhöfn Cherkasy hefði verið tekin höndum. Togarinn hefði verið umkringdur af Mi-35-árásarþyrlum og nokkrum minni skipum.

Ríkisstjórn Úkraínu fyrirskipaði úkraínska heraflanum á Krímskaga að yfirgefa svæðið í gær í kjölfar þess að Rússland innlimaði það formlega. Rússneskir hermenn og sveitir heimamanna hlynntar rússneskum stjórnvöldum ráða nú yfir nær öllum herstöðvum á Krímskaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka