Flugvélahvarfið ekkert slys

Flugstjóri malasísku farþegaþotunnar sem hvarf með 239 farþega innanborðs fyrir 18 dögum ber einn ábyrgð á því að þotunni var flogið af leið. Engin merki eru um tæknibilun eða flugrán. Þetta segir háttsettur rannsóknarlögreglumaður sem tekið hefur þátt í rannsókninni frá upphafi.

Frá þessu er greint á fréttavef USA Today og einnig að heimildarmaðurinn sé háttsettur rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni í Kuala Lumpur. Í greininni segir að lögreglan leggi mikla áherslu á að yfirheyra fjölskyldu flugstjórans Zaharies Ahmads Shahs, meðal annars um hegðun hans dagana fyrir 8. mars.

Nafn heimildarmannsins er ekki gefið upp og segir að það sé vegna þess að hann hafi ekki leyfi til að tala við fjölmiðla um rannsóknina.

Rannsóknarlögreglumaðurinn sem USA Today ræddi við segir að talið sé að flugstjórinn hafi viljandi breytt stefnu farþegaþotunnar, en hann einn hafði reynslu og þekkingu til að fljúga vélinni.

Fyrr í þessari viku var greint frá því að vélin hefði hrapað í Indlandshaf og í dag kom fram að alls hefðu 122 hlutir sést á reki í suðurhluta hafsins.

Nær ómögulegt að finna svarta kassann

Þá er frá því greint í breska dagblaðinu Telegraph í dag að sérfræðingar telji ólíklegt að svarti kassinn finnist nokkurn tíma og þó svo að hann finnist þá séu líklega engin gögn um það þegar stefnu farþegaþotunnar var breytt.

Meðal annars er bent á að dýpt hafsins sé slík að það sé nær óhugsandi að finna svarta kassann. Það taki alla vega nokkur ár. Þá hafi stefnu vélarinnar verið breytt á fyrstu klukkustund flugsins en vélinni hafi verið flogið áfram lengi vel eftir það. Svarti kassinn skrái aðeins tvær klukkustundir. Eftir þær byrji hann upp á nýtt og eyði þar með þeim gögnum sem búið var að skrá. Þannig hafi hann líklega tekið yfir þær upplýsingar sem komu fram þegar stefnunni var breytt.

Eini möguleikinn á því að gögnin séu til um það hvað gerðist sé að rafmagnsstraumur hafi rofnað og skrásetningu þannig verið hætt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka