Angela Merkel, kanslari Þýskalands, lýsti í dag yfir stuðningi lands síns við sameiningu ríkjanna á Kóreuskaga. Fram kemur í frétt AFP að Merkel hafi sagt að sameining Þýskalands legði þá skyldu á herðar Þjóðverjum að aðstoða aðra í sömu stöðu.
Merkel lét ummælin falla á blaðamannafundi með Park Geun-hye, forseta Suður-Kóreu, sem er staddur í opinberri heimsókn í Þýskalandi. „Þýskaland var klofið í tvo hluta í 40 ár. Kórea er í sömu stöðu,“ sagði hún. Viðræður í þeim efnum myndu fara fram á milli utanríkisráðherra Þýskalands og Suður-Kóreu. Slík sameining skapaði þörf fyrir mikinn efnahagslegan stuðning.
Rifjað er upp í fréttinni að Kóreustríðinu hafi lokið fyrir rúmum sextíu árum með vopnahléi sem þýddi að Norður- og Suður-Kórea ættu í raun enn í stríði.