Stjórnvöld í Sviss tóku þá ákvörðun í dag að grípa ekki til refsiaðgerða gegn Rússum vegna innlimunar þeirra á Krímskaga. Fram kemur í frétt AFP að svissneskir ráðamenn vilji að eigin sögn finna jafnvægi á milli alþjóðalaga og hagsmuna Sviss.
Haft er eftir Didier Burkhalter, forseta Sviss, að land hans gæti aðeins gripið til refsiaðgerða í samræmi við alþjóðalög og hagsmuni Svisslendinga. Ennfremur að stefna Sviss væri óháð Sameinuðu þjóðunum. Finna þyrfti jafnvægi í þessum efnum en Rússar hefðu mikilla hagsmuna að gæta í Sviss.
Hins vegar myndu Svisslendingar taka þátt í einhverjum aðgerðum Evrópusambandsins gegn Rússum, þar með talið takmörkunum á frjálsa för sumra rússneskra ríkisborgara þar sem Sviss væri aðili að Schengen-samstarfinu.