„Hommar og lesbíur geta ekki átt börn. Líffræðilega er það ómögulegt,“ sagði predikarinn Franklin Graham í viðtali og hló. Spurður hvort þau gætu ekki ættleitt börn svaraði predikarinn um hæl: „Þau geta safnað liði (e. recruit).“
- Hver er munurinn á því að ættleiða og „safna liði“?
„Þú getur ættleitt barn inn í hjónaband og einnig safnað liði til fylgis við málstað þinn. Ég trúi á það að vernda börn, ok? Fyrir misnotkun. Fyrir allri misnotkun. Um það snýst þetta. Ég er sammála Pútín, ég held að það hafi veri snjallt hjá honum að vernda börn þjóðar sinnar.“
Þetta sagði predikarinn Graham í viðtali við Charlotte Observer. Graham er sonur predikarans Billys Grahams og kom hingað til að predika á Hátíð vonar sem haldin var í Laugardalshöll í september á síðasta ári.
Vladimír Pútín skrifaði í sumar undir lög sem banna samkynhneigðum pörum frá öðrum löndum að ættleiða rússnesk börn. Þá skrifaði hann einnig undir lög sem banna það sem er kallað „áróður“ fyrir samkynhneigð. Yfirlýstur tilgangur laganna er að verja börn fyrir áróðri fyrir samkynhneigð þar sem slíkt geti haft neikvæð áhrif á þau.
Í viðtalinu bætir Graham um betur og segir að bandaríska þingið þurfi að gera meira í þessa veru. „Okkar þing og okkar forseti halda á lofti málstað, málstað homma og lesbía, og margir þingmenn fylgja þessu.“
- Hver er þessi málstaður?
„Sjáðu bara hvar við erum stödd í dag. Hvert sem við lítum er verið að þrýsta á þennan málstað homma og lesbía,“ svaraði Graham og nefndi sem dæmi hjónabönd samkynhneigðra.
Síðar í viðtalinu segist Graham oft vera ofsóttur fyrir sínar trúarskoðanir, það geri m.a. „hreyfing homma og lesbía“.
Hann segist ekki haldinn hómófóbíu. „Ég er ekki með hómófóbíu, ég er ekki hræddur við þau. Ég er ekki óumburðarlyndur, ég hef bara aðrar skoðanir.“ Hann segir að hommar og lesbíur fordæmi (e. demonize) alla sem séu annarrar skoðunar en þau.
Hér má sjá frétt Charlotte Observer um málið og hér að neðan er myndskeið af viðtalinu við Graham.