Hefja rannsókn á stríðsglæpum á Sri Lanka

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna (UNHRC) samþykkti í gær að hefja rannsókn á stríðsglæpum á Sri Lanka á tímum borgarastyrjaldarinnar. Talið er að um 40 þúsund Tamíltígrar hafi verið drepnir á síðustu mánuðum stríðsins sem lauk árið 2009.

yfirvöld á Sri Lanka telja sig hins vegar hafa unnið sigur við atkvæðagreiðsluna hjá UNHRC í Genf í gær þar sem 23 hafi greitt atkvæði með rannsókninni en tólf á móti. Aftur á móti hafi 12 setið hjá sem þýði að meirihluti ráðsins hafi ekki stutt rannsóknina. Tillagan um rannsókn kom frá fulltrúum Bandaríkjanna.

Ravinatha Aryasinha, sem fer fyrir sendinefnd Sri Lanka í Genf, segir að þau 24 ríki sem neituðu að taka undir tillögu Bandaríkjanna hafi sent skýr skilaboð um að þau séu ekki sammála freklegum yfirgangi Bandaríkjanna á Sri Lanka.

„Meirihluti á móti Bandaríkjunum,“ segir í fyrirsögn á ríkisdagblaðinu Daily News á Sri Lanka. Dagblaðið The Island, sem er í einkaeigu, sakar stjórnvöld í Bandaríkjunum um afskipti af innanríkismálum á Sri Lanka. 

Forseti Sri Lanka, Mahinda Rajapakse, segist ánægður með að nágrannaríkið Indland hafi setið hjá að þessu sinni en í fyrra studdu Indverjar svipaða tillögu gagnvart Sri Lanka. „Ég tel það hvetjandi að Indverjar greiddu ekki atkvæði gegn okkur,“ sagði hann skömmu eftir atkvæðagreiðsluna.

Þakklætið birtist síðan í verki í dag þegar Rajapakse fyrirskiptaði að tugir indverskra sjómanna yrðu látnir lausir úr haldi en þeir voru handteknir fyrir ólöglegar veiðar á yfirráðasvæði Sri Lanka.

Samþykkt UNHRC er sú þriðja um þetta mál á jafnmörgum árum en þessi er sú harðorðasta hingað til. Stjórnvöld á Sri Lanka halda því hins vegar fram að enginn óbreyttur borgari hafi fallið fyrir hendi hermanna. 

Alls er talið að 100 þúsund hafi látist í borgarastríðinu sem stóð yfir frá árinu 1972 til ársins 2009 eða í 37 ár, samkvæmt upplýsingum frá SÞ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert