Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur engar fyrirætlanir um að beita frekara hervaldi gegn Úkraínu. Þetta sagði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, við fréttamenn eftir að hafa fundað með Öryggisráði SÞ og greint því frá ferð sinni nýverið til Moskvu og Kænugarðs. Ki-moon sagði Pútín hafa fullvissað sig um að hann hefði ekkert slíkt í hyggju.
Þetta kemur fram í fréttum AFP og einnig að Pútín hafi hringt í Barack Obama Bandaríkjaforseta í dag í því skyni að ræða við hann um tillögu sem Bandaríkjamenn hafa lagt fram til lausnar á stöðu mála í Úkraínu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hvíta húsinu samkvæmt frétt AFP.
Fram kemur í fréttinni að Obama hafi lagt til að Rússar svöruðu með skriflegum hætti tillögunni sem John Kerry utanríkisráðherra Bandaríkjanna hafi kynnt fyrir Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í Haag í Hollandi í síðustu viku. Gert er ráð fyrir að ráðherrarnir tveir hittist bráðlega til þess að ræða næstu skref.