Lögreglan í Mílanó á Ítalíu hefur handtekið 35 ára karlmann frá Ekvador sem grunaður er um að hafa nauðgað 22 ára námsmey í borginni í janúar. Konan ákvað að þiggja far hjá manninum sem kvaðst vera leigubílstjóri. Í stað þess að aka henni á áfangastað braut hann gegn henni í bílnum og rændi hana.
Konan sem er frá Belgíu var úti á lífinu með vinkonum sínum þegar hún ákvað að halda heim vegna vanlíðunar. Þegar hún fann ekki löggiltan leigubíl ákvað hún að þiggja far hjá manni sem bauðst til að aka henni fyrir minna fé en löggiltir leigubílstjórar rukka. Hann ók bifreiðinni í illa lýst húsasund þar sem hann þvingaði konuna til samræðis við sig.
Þá rændi hann af konunni síma hennar og henti henni út úr bílnum.
Ítalska lögreglan handtók manninn eftir að niðurstöður úr rannsókn lífsýna á líkama konunnar voru ljósar. Á heimili hans fannst svo farsími konunnar. Maðurinn, Manuel A., er giftur og á þrjú börn. Hann er þekktur fyrir að bjóða erlendum námsmönnum á svæðinu alls kyns vörur og þjónustu og er hann grunaður um að hafa brotið gegn fleiri konum.