Minni ríki en Bretland sem standa utan Evrópusambandsins geta samið um betri fríverslunarsamninga en þá sem Bretum standa til boða í gegnum sambandið. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar bresku hugveitunnar Civitas. Greint er frá þeim á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph í dag.
Hugveitan tekur Sviss sem dæmi um ríki utan Evrópusambandsins sem hafi tekist betur upp við að semja um fríverslun en sambandið en ríki þess geta ekki samið um slíka samninga á eigin vegum. Ástæðan fyrir betri árangri Sviss en Evrópusambandsins sé sú að ólíkir hagsmunir ríkja sambandsins sem og áhrif þrýstihópa hafi tafið fyrir gerð fríverslunarsamninga á vegum þess.
Fram kemur í niðurstöðunum að svo virðist sem Sviss hafi gengið betur að ná fríverslunarsamningum við mikilvægustu hagkerfi heimsins. Þar á meðal Kína, Japan og Singapúr þrátt fyrir að hafa ekki það vægi sem Evrópusambandið búi yfir. Þá hafi Svisslendingar getað samið um fríverslun í samræmi við eigin áherslur á meðan að Bretland hafi þurft að sætta sig við forgangsröðun framkvæmdastjórnar sambandsins.
Hugveitan bendir á að viðræður um fríverslunarsamning á milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins hafi næstum orðið að engu vegna þess að Frakkar vildu ekki að þær næðu til menningarmála eins og sjónvarpsefnis og kvikmynda. „Það virðist lítill vafi á því að við værum betur stödd með sama sjálfstæði og Sviss og án vægis Evrópusambandsins,“ segir ennfremur í niðurstöðunum.