Utanríkisráðherrum Bandaríkjanna og Rússlands, John Kerry og Sergei Lavrov, tókst ekki að ná samkomulagi á fundi sínum í dag en ætlunin var að reyna að draga úr alþjóðlegri spennu í kjölfar þess að Rússar innlimuðu Krímskaga. Fram kemur í frétt AFP að engu að síður sé ætlunin að halda áfram viðræðum um málið.
Haft er eftir Lavrov að þeir Kerry hafi lagt fram tillögur um með hvaða hætti mætti draga úr spennu vegna málsins en þeir hafi hins vegar ekki verið sammála um hvað hafi valdið spennunni. Hann hafi sjálfur ítrekað þá afstöðu rússneskra stjórnvalda að lykilatriði væri að Úkraína yrði að sambandsríki. Með þeim hætti væri hægt að tryggja réttindi rússneskumælandi minnihlutans í landinu.
Haft var eftir Kerry að Rússar yrðu að draga herlið sitt frá landsmærunum að Úkraínu og að frekari viðræður yrðu ekki án þátttöku úkraínskra stjórnvalda.