Yfirvöld í Malasíu leiðréttu í dag fyrri fréttir af síðustu skilaboðunum sem bárust frá flugi MH370 áður en vélin hvarf með 239 manns um borð. „Góða nótt Malaysian þrír, sjö, núll,“ var það síðasta sem heyrðist úr flugstjórnarklefanum hinn 7. mars.
Áður var fullyrt að síðustu ummælin hefðu verið: „Allt í lagi, góða nótt.“ Þetta var upphaflega haft eftir sendiherra Malasíu í Peking, á fundi með aðstandendum Kínverja sem voru um borð í flugvélinni.
Ekki liggur fyrir hvers vegna rangt var farið með ummælin, né hvers vegna það tók malasísk yfirvöld næstum þrjár vikur að leiðrétta misskilninginn.
Samgöngumálaráðuneyti Malasíu segir að frekari rannsóknir muni endanlega skera úr um hvort það var flugstjórinn eða flugmaðurinn sem lét þessi orð falla, samkvæmt því sem fram kemur á vef BBC.
Þó hefur komið fram að stjórnendur Malaysia Airlines telji að flugmaðurinn, en ekki flugstjórinn, hafi mælt þetta við flugumferðarstjórnina áður en vélin fór inn í víetnamska lofthelgi.
Richard Westcott, sérfræðingur BBC í flugumferðarmálum, segir að þessi nýja útgáfa af hinstu skilaboðum flugvélarinnar sé talsvert formlegri og meira í samræmi við það sem búast mætti við að flugmaður segði við flugumferðarstjórn.
Sjá fyrri fréttir mbl.is: