Endurhugsi samskiptin við Rússa

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir að á vettvangi Atlantshafsbandalagsins þurfi að endurhugsa samskiptin við Rússland og það verði skoðunarefni þar næstu vikurnar.

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins ræddu stöðu öryggismála í Evrópu og á Norður-Atlantshafssvæðinu á fundum sínum í Brussel í dag. Ráðherrarnir áréttuðu fordæmingu sína á aðgerðum Rússa og ólögmætri innlimun Krímskaga, að því er segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Enn fremur veldur viðbúnaður og liðsafli Rússa við landamæri Úkraínu áhyggjum bandalagsríkja og hefur loftrýmisgæsla á vegum Atlantshafsbandalagsins í Eystrasaltsríkjunum verið efld.

„Við ræddum þá alvarlegu stöðu sem hernaðaraðgerðir Rússa og innlimun Krímskaga skapar fyrir öryggi Evrópu,“ er haft eftir Gunnari Braga í tilkynningunni.  

„Á fundinum fórum við yfir aðgerðir sem ætlað er að styðja við Úkraínu og önnur samstarfsríki okkar í Austur-Evrópu. Á vettvangi Atlandshafsbandalagsins þarf að endurhugsa samskiptin við Rússland og það verður skoðunarefni þar næstu vikurnar,“ segir hann.

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins funduðu einnig með Andrii Deshchytsia, starfandi utanríkisráðherra í NATO-Úkraínunefndinni. Bandalagsríkin hétu því að halda áfram að vinna með stjórnvöldum í Úkraínu að pólitískri og friðsamlegri lausn sem tæki mið af alþjóðalögum og alþjóðlega viðurkenndum landmærum landsins.

Þá var þess sérstaklega minnst á fundi utanríkisráðherranna að tólf ríki hafa gerst aðildarríki að bandalaginu á síðustu fimmtán árum, að því er segir í tilkynningunni.

Eins og greint hefur verið frá var ákveðið á fundinum að NATO hætti öllu hernaðarlegu og borgaralegu samstarfi sínu við rússnesk stjórnvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert