Noregur hvikar hvergi í hvalveiðum

Langreyður skorin.
Langreyður skorin. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Norðmenn staðfestu í dag óbreyttan hvalveiðikvóta fyrir árið 2014 og munu þeir veiða allt að 1.286 hvali líkt og í fyrra. Hvalveiðimenn hafa að vísu átt erfitt með að fylla kvótann, sem hvalaverndunarsinnar segja til vitnis um að markaðurinn sé ekki til staðar. Japanir eru hættir hvalveiðum í bili.

„Í ár höfum við ákveðið kvóta sem tryggir áframhald og góðan ramma utan um hvalveiðigeirann,“ sagði norski sjávarútvegsráðherrann Elisabeth Aspaker í yfirlýsingu í dag. Líkt og Íslendingar hafa Norðmenn virt að vettugi bann Alþjóðahvalveiðiráðsins gegn hvalveiðum í atvinnuskyni, sem sett var 1986.

Japanir hafa undanfarin ár stundað hvalveiðar í Suður-Íshafi í meintu rannsóknaskyni, en Alþjóðadómstóll Sameinuðu þjóðanna komst í gær að þeirri niðurstöðu að veiðarnar hefðu ekkert með vísindi að gera.

Japanir hafa samþykkt að hlíta niðurstöðu dómsins og hætta veiðunum að sinni, á meðan þeir endurskoða sín mál. 

Aðeins 594 hvalir veiddust í Noregi í fyrra og voru norsk hvalveiðiskip því langt frá því að fullnýta kvótann. Talsmaður Greenpeace í Noregi, Truls Gulowsen, segir að ár eftir ár sé kvótinn ekki fullnýttur og því sé settur kvóti í ár óþarflega hár.

„En það er ekki stórvandamál, þetta er deyjandi bransi vegna þess að neytendur vilja pítsu frekar en hvalkjöt,“ segir Gulowsen.

Hvalveiðimenn í Noregi segja hinsvegar að kvótinn sé ekki nýttur vegna þess að eldsneytisverð sé of hátt, veiðisvæðin of langt í burtu og hvalstöðvarnar ráði ekki við að starfa á fullum afköstum.

Hvalveiðitímabilið í Noregi hefst í dag, 1. apríl, og er til 30. september.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert