Rússar með 40.000 hermenn við landamærin

AFP

Rússar hafa safnað saman nægu herliði við landamærin að Úkraínu til þess að gera innrás í landið. Verði slík ákvörðun tekin gætu rússneskar hersveitir framkvæmt innrásina á 3-5 dögum. Þetta segir Philip Breedlove, yfirhershöfðingi Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Evrópu, í samtali við Reuters í dag. 

Staða mála er gríðarlegt áhyggjuefni að sögn Breedloves en Rússar innlimuðu Krímskaga í síðasta mánuði sem áður var hluti af Úkraínu. Vestræn ríki hafa í kjölfarið gripið til refsiaðgerða gegn Rússum en óttast er að þeir hafi í hyggju að ráðast inn í austur- og suðurhlutahluta Úkraínu þar sem rússneskumælandi fólk er fjölmennt. NATO áætlar að Rússar hafi safnað saman 40 þúsund hermönnum við landamærin.

Haft er eftir Breedlove að þessi her sé bæði mjög stór, hafi mikla hernaðargetu og sé auk þess reiðubúinn að láta til skarar skríða. Fram kemur að heraflinn við landmærin hafi yfir að ráða flugvélum og þyrlum auk hersjúkrahúsa og tækja til þess að ráðast gegn tæknibúnaði andstæðingsins. Með öðrum orðum allt sem til þarf fyrir innrás í Úkraínu ef sú ákvörðun verður tekin, segir Breedlove.

NATO þurfi að búa sig undir mögulegan hernað

„Ég teljum að herinn sé reiðubúinn að leggja af stað og við teljum að hann gæti náð markmiði sínu á 3-5 dögum ef skipun berst,“ segir hann. Markmið Rússa gæti þá verið hernám suðurhluta Úkraínu til þess að tryggja aðgengi að Krímskaga yfir land eða sækja fram allt að úkraínsku Svartahafshöfninni Odessa og jafnvel enn lengra og tengja sig við héraðið Transdniestria í Moldóvu þar sem rússneskmælandi fólk er fjölmennt.

Þá hafi Rússar ennfremur herlið fyrir norðan Úkraínu og norðaustur af landinu sem gætu farið inn í austurhluta þess ef fyrirskipun bærist að sögn Breedloves. NATO yrði að skoða hvernig bandalagið tæki á þeim aðstæðum sem komið gætu upp. Endurskoða þyrfti meðal annars skipulag þess á svæðinu, staðsetningu herliðs og hversu viðbúið það væri til þess að grípa til vopna gerðist þess þörf.

Fram kemur í fréttinni að sú vinna sé í gangi en utanríkisráðherrar aðildarríkja NATO hafi óskað eftir því við hann að gerðar yrðu áætlanir um það með hvaða hætti mætti styrkja stöðu aðildarríkja bandalagsins í Austur-Evrópu sem telja sér ógnað af framgöngu Rússa, þá bæði með tilliti til varna í lofti, á láði og legi. Þeirri vinnu eigi að vera lokið fyrir 15. apríl næstkomandi.

Bandaríski hershöfðinginn Philip Breedlove, yfirhershöfðingi NATO í Evrópu.
Bandaríski hershöfðinginn Philip Breedlove, yfirhershöfðingi NATO í Evrópu. Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert