Íbúar Sarajevo minnast þess í ár að öld er liðin frá því Franz Ferdinand erkihertogi var myrtur í borginni ásamt eiginkonu sinni Sofíu. Morðið á þeim þann 28. júní 1914 er talið marka upphaf fyrri heimsstyrjaldarinnar.
Franz Ferdinand Karl Ludwig Joseph fæddist árið 1863 í Graz, Austurríki. Faðir hans var Karl Lúðvík erkihertogi, bróðir Franz Jósefs, keisara Austurríkis-Ungverjalands. Eftir sjálfsvíg Rúdolfs krónprins varð Franz erfingi krúnunnar, en Rúdolf og Karl Lúðvík létust með skömmu millibili rétt fyrir aldamótin 1900.
Franz Ferdinand varð fráhverfur mörgum pólitískum skoðunum austurrísk-ungversku þjóðarinnar, en þessi tvö lönd voru sameinuð á þessum tíma. Til að mynda voru ungverskir þjóðernissinnar andvígir skoðunum hans á fullum kosningarétti karlmanna, sem myndi veita minni þjóðernishópum kosningarétt og minnka möguleika þeirra á auknum völdum í landinu. Einnig var talið að hann styddi þrískiptingu á landinu, það er að þriðja konungdæmið yrði sett á fót innan landsins, leitt af Króötum. Var það hugsað sem varnargarður gegn landtöku Serba. Franz Ferdinand var álitinn af öðrum þjóðum leiðtogi stríðsfylkingar en það var langt frá sannleikanum, Franz var mikill friðarsinni og hélt uppi friði innan ríkisstjórnar sinnar meðan á deilum milli Bosníumanna og Balkan-stríðinu stóð, að því er fram kom í grein sem birtist um hann í Morgunblaðinu árið 2005.
„Bosnía og Hersegóvína hafði verið hertekin af Austurríki-Ungverjalandi frá árinu 1878. Mikill fjöldi Bosníumanna var andvígur hersetu Austurríkismanna og vildi fremur tengjast öðrum slavneskum löndum en Austurríki. Þessi óánægja hafði stigmagnast og var andúðin gegn austurrísku konungsfjölskyldunni mikil þegar Franz Ferdinand ákvað að heimsækja Sarajevo 28. júní 1914. Aftur á móti hafði Franz litið á þessa heimsókn sína sem góðan vettvang til að koma fram opinberlega með eiginkonu sinni, en þau höfðu vart komið fram vegna stéttarmunar þeirra, og halda upp á 14 ára brúðkaupsafmæli sitt.
En á meðan Franz Ferdinand undirbjó komu sína voru aðrir sem undirbjuggu komu hans. Skæruliðahópurinn Ung-Bosnía, sem samanstóð af níu meðlimum, hafði undirbúið komu erkihertogans með því takmarki að ráða hann af dögum. Talið er að hópurinn hafi verið í samstarfi við Svörtu höndina, leynisamfélag tengt serbnesku stjórninni, en óljóst er hversu mikil tengsl höfðu verið á milli hópanna. Þó er talið öruggt að Svarta höndin hafi hjálpað Ung-Bosníu við að útvega vopn fyrir árásina.
Árásin sjálf var fremur klaufaleg og er talið að það hafi verið tilviljun ein að hún hafi tekist. 7 meðlimir Ung-Bosníu höfðu raðað sér upp á mismunandi stöðum meðfram leið skrúðlestar Franz Ferdinands. Klukkan kortér yfir 10 um morguninn fór lestin framhjá fyrsta meðlim hópsins, Mehmedbašic, en hann hafði átt að skjóta erkihertogann til bana. Hann náði ekki nógu góðu færi á erkihertogann, og hætti við og lét sig hverfa. Annar meðlimurinn, Cabrinovic, henti hins vegar sprengju í átt að lestinni en hitti ekki vagn erkihertogans heldur þann sem var fyrir aftan, með þeim afleiðingum að hann sprakk í loft upp og særðust nokkrir lögreglumenn og fylgdarmenn. Cabrinovic tók þá blásýrutöflu og henti sér í Miljacka-ána sem var þar nærri. Á meðan skrúðlestin keyrði í burtu fóru lögreglumenn og drógu Cabrinovic upp úr ánni. Æstur múgurinn réðst á Cabrinovic, sem enn var á lífi, og særði hann alvarlega áður en lögreglan handsamaði hann. Blásýrutaflan hafði verið gölluð og ekki gert það gagn sem ætlast var til.
Aðrir meðlimir Ung-Bosníu hættu við aðgerðina þar sem skrúðlest erkihertogans hafði brunað í burtu vegna sprengingarinnar. Einn meðlimanna, Gavrilo Princip, ákvað þá að fara út í búð og fá sér að borða, þar sem hann hélt að annaðhvort hefði erkihertoginn látist í sprengingunni eða tilræðið hreinlega misheppnast. Á leið sinni í búðina sá hann bíl Franz Ferdinands keyra framhjá, eftir að hafa tekið vitlausa beygju. Princip hljóp þá upp að bílnum og skaut hertogaynjuna í magann og erkihertogann í hálsinn. Princip reyndi því næst að taka eigið líf með því að gleypa blásýrupillu. Pillan virkaði ekki betur en hjá félaga hans því að hann seldi henni upp rétt áður en hann reyndi að skjóta sig. Það gekk ekki betur en svo að æstur lýður náði byssunni frá honum og lögreglan handsamaði hann,“ segir í grein sem birtist í Morgunblaðinu.
Franz Ferdinand og kona hans létust af sárum sínum á heimili ríkisstjórans.