Hundruð mótmælenda lögðu undir sig stjórnarbyggingu í borginni Donetsk í austurhluta Úkraínu í dag og hrópuðu hástöfum: „Donetsk er rússnesk borg!“
Þeir krefjast þess að yfirvöld boði til þjóðaratkvæðagreiðslu um innlimun borgarinnar í Rússland. Til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu en ekki er talið að nein slys hafi orðið á fólki.
Mótmælafundir voru haldnir víða í Úkraínu í dag, þar á meðal í borgunum Lugansk og Kharkiv. Þar var sitjandi stjórnvöldum í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu, mótmælt harðlega, en flestir mótmælendurnir eru stuðningsmenn ríkisstjórnar Vladímirs Pútíns, forseta Rússlands.
Forseti Úkraínu, Oleksandr Túrtsjínov, ákvað í dag að fresta för sinni til Litháens í ljósi ástandsins í Donetsk. Hann hefur jafnframt boðað til neyðarfundar meðal yfirmanna lögreglunnar og háttsettra embættismanna í landinu þar sem næstu skref verða rædd, að því er fram kemur í frétt AFP.
Um helmingur íbúa Donetsk er rússneskumælandi. Margir þeirra vilja fara sömu leið og íbúar Krímskaga, en eins og frægt er orðið samþykkti mikill meirihluti þeirra í síðasta mánuði að segja sig úr lögum við Úkraínu og sameina héraðið Rússlandi.