Suður-Afríka er ekki lengur stærsta hagkerfi Afríku ef marka má endurskoðaðar og nýútgefnar tölur yfir verga landsframleiðslu Nígeríu, sem fela nú í sér áður óskráðan iðnað, s.s. upplýsingatækni, kvikmyndagerð, rafrænar verslanir o.fl.
Samkvæmt hagstofu Nígeríu nam verg landsframleiðsla síðasta árs 80,3 trilljónum naira, sem nemur tæpum 510 Bandaríkjadölum. Verg landsframleiðsla Suður-Afríku var til samanburðar rúmir 370 dalir árið 2013.
Nígerísk stjórnvöld höfðu ekki gefið út enduryfirfarnar hagtölur síðan árið 1990. Fyrir 24 árum var aðeins eitt símfyrirtæki í landinu, með um 300.000 tengda við landlínu. Nú hefur farsímaiðnaður sprungið út eins og víðar í Afríku, með tugmilljónum notenda. Sömuleiðis var aðeins eitt flugfélag í landinu fyrir 24 árum, en nú eru þau mörg.
Hagfræðingar benda þó á að miðað við fólksfjölda sé framleiðslugeta Nígeríu ekki fullnýtt. 170 milljónir manna búa í Nígeríu, um þrefalt fleiri en í Suður-Afríku. Sé miðað við höfðatölu er landsframleiðsla Suður-Afríku því um þrefalt meiri en í Nígeríu.
Nígeríski fjármálahagfræðingurinn Bismarck Rewane segir að útgáfan á hagtölunum sé hégómi í stjórnvöldum.
„Almenningur í Nígeríu hefur það ekkert betra á morgun vegna þessarar yfirlýsingar. Þetta færir ekki peninga á bankareikninginn þeirra eða meiri mat í magann. Þetta breytir engu.“