Malasísku flugvélinni, sem hvarf af ratsjá fyrir rúmum fjórum vikum, var flogið norður af Indónesíu og í kringum landhelgi Indónesíu á leiðinni að Indlandshafi. Þetta hefur CNN eftir hátt settum embættismanni malasísku ríkisstjórnarinnar.
Þessi ályktun var dregin eftir að rannsakendur máleins fengu upplýsingar frá ratsjám landa á svæðinu. Vélinni var því ekki flogið yfir Indónesíu eða inn í lofthelgi landsins. Samkvæmt heimildamanni CNN er mögulegt að vélinni hafi viljandi verið flogið þessa leið svo hún birtist síður á ratsjám.
Aukinn kraftur verður settur í leitina að vélinni í dag. Í gær og í fyrradag tókst kínverskum leitarflokkum að greina hljóðbylgjur sem mögulega eru frá flugrita vélarinnar.
Breskt herskip er nú á leiðinni á svæðið þar sem kínverska skipið heyrði hljóðin. Aftur á móti kannar ástralska herskipið Ocean Shield hljóð sem hafa heyrst á öðru svæði. Þetta sagði Angus Houston, yfirmaður ástralska hersins, á blaðamannafundi í morgun.