Friðhelgi einkalífs vegur þyngra

mbl.is

Evrópudómstóllinn komst í dag að þeirri niðurstöðu að tilskipun Evrópusambandsins um gagnageymslu brjóti í bága við réttindaskrá Evrópusambandsins og meðalhófsregluna og sé því ógild. 

Hópar, bæði frá Írlandi og Austurríki fóru með málið fyrir Evrópudómstólinn. Dómurinn féllst á það sjónarmið að gagnageymslan geti vissulega reynst mikilvægt tæki í baráttu gegn ýmis konar glæpum en hins vegar vegi sjónarmið um friðhelgi einkalífs þyngra. Dómurinn nefnir þrjár aðalástæður fyrir niðurstöðu sinni. 

Í fyrsta lagi er í tilskipuninni ekki að finna neina takmörkun á því hvaða gögnum má safna, heldur sé eina takmörkunin að gögnin eigi að vera hægt að nota til þess að berjast gegn glæpum. 

Í öðru lagi er það ekki tryggt með tilskipuninni að það séu aðeins viðeigandi stjórnvald, sem fái aðgang að gögnunum. 

Í þriðja lagi er í tilskipuninni tekið fram að aðildarríkin mega sjálf ákveða hvort geyma skuli gögnin í allt frá 6-24 mánuði. Enginn greinarmunur er gerður á mismunandi tegundum gagna í þessu samhengi. Dómurinn telur að þar sem um íþyngjandi inngrip í friðhelgi einkalífs sé að ræða, sé nauðsynlegt að gögn séu ekki geymd lengur en þörf krefur. 

Ennfremur segir dómurinn að ekki sé að finna í tilskipuninni neitt sem skyldar aðildarríkin til þess að tryggja það að upplýsingarnar séu misnotaðar. Að lokum nefnir dómurinn að tilskipunin sé til þess fallin að almennir borgarar í Evrópu upplifi það þannig að þeir séu undir stöðugu eftirliti. 

Í 42. gr. íslenskra laga um fjarskipti eru fjarskiptafyrirtækin skylduð til þess að geyma lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda í sex mánuði. 

Fagna dómnum innilega

IMMI-stofnunin, sem er alþjóðleg stofnun um upplýsinga- og tjáningafrelsi, fagnar dómnum og skorar á Alþingi að afnema gagnageymdina úr fjarskiptalögunum án tafar og vera þannig í hópi þeirra ríkja sem bregðast fyrst við dómi Evrópudómstólsins. „Afnám ákvæðisins ætti að vera Alþingi auðvelt enda er Ísland ekki bundið af umræddri tilskipun. Tilskipunin er ekki hluti af EES og má þakka það mótstöðu utanríkismálanefndar Alþingis,“ segir í tilkynningunni frá IMMI. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert