Mikill þurrkur í Sýrlandi gæti leitt til þess að hveitiuppskeran myndi dragast verulega saman og stefna lífi milljóna íbúa í hættu að sögn Sameinuðu þjóðanna.
Matvælaáætlun SÞ (WFP) segir að frá því í september hafi mæld úrkoma verið mun minni en vanalega. Á sama tíma hefur mataraðstoð WFP dregist saman um fimmtung vegna fjárskorts, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins.
Átökin í Sýrlandi hófust fyrir þremur árum og hafa yfir 100.000 látist í stríðinu.
WFP óttast að yfirvofandi þurrkur muni koma verst við íbúa á norðvesturhluta landsins og nefna þeir sérstaklega borgirnar Aleppo, Idlib og Hama. Þetta geti stefn lífi milljóna í hættu.
Svo gæti farið að um 6,5 milljónir Sýrlendinga þyrftu þá á matargjöf að halda vegna neyðarástandsins. Nú þurfa um 4,2 milljónir landsmanna slíka aðstoð.
Fram kemur, að sýrlensk stjórnvöld gætu neyðst til að flytja inn meira af hveiti í ár heldur en í fyrra. Þá urðu yfirvöld að flytja inn fimm milljón tonn.