Hóta að skrúfa fyrir gasið

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur sagt við evrópska þjóðarleiðtoga að mjög alvarleg staða sé komin upp þar sem stjórnvöld í Úkraínu hafi dregið það að greiða fyrir kaup á rússensku gasi.

Evrópuleiðtogar óttast að spennan í samskiptum Rússa og Úkraínumanna muni leiða til skorts á gasi í Evrópu, en margar leiðslur sem flytja gas frá Rússlandi til Evrópu liggja í gegnum Úkraínu. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Rússneska gasfyrirtækið Gazprom segir að gasreikningur ríkisstjórnar Úkraínu sé kominn yfir tvo milljarða Bandaríkjadala. Í gær greindi fyrirtækið frá því, að það gæti krafist þess að stjórnvöld í Kænugarði greiði fyrirfram gasið. Pútín segir hins vegar að Gazprom eigi að bíða eftir niðurstöðum viðræðna við „félaga okkar“. Flestir telja að þarna eigi forsetinn við Evrópusambandið. 

Hann sendi leiðtogum ESB bréf þar sem hann varar við þeirri alvarlegu stöðu sem sé komin upp og að hún gæti haft áhrif á flutning á gasi til Evrópu. Þetta segir Dimítrí Peskov, talsmaður Pútíns. 

Rússnesk stjórnvöld hafa birt bréfið opinberlega. Þar segir að ef Úkraína gerir ekki upp orkureikninginn þá neyðist Gazprom til að fara fram á fyrirframgreiðslur. Verði reikningarnir ekki greiddir þá muni það hafa áhrif á gasflutning, þ.e. skrúfað verður fyrir gasið að heild eða hluta. 

Pútín bætti við að Rússland væri reiðubúið að taka þátt í viðræðum til að koma á stöðugleika og renna styrkum stoðum undir hagkerfi Úkraínu. Það verði hins vegar að vera á jafnréttisgrundvelli gagnvart ESB.

Rússar útvega ESB tæplega þriðjung þess gass sem ríkin nota. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert