Vann samkeppni um úrsögn Breta úr ESB

mbl.is

Breskur embættismaður vann á dögunum verðlaun að upphæð 100 þúsund evrur í samkeppni um bestu ritgerðina um það hvað biði Bretlands efnahagslega ef landið segði skilið við Evrópusambandið. Breska hugveitan Institute of Economic Affairs stóð fyrir samkeppninni og voru verðlaunin afhent síðastliðinn þriðjudag.

Fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com að ef Bretland yfirgæfi Evrópusambandið og gengi til liðs við Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) leiddi það til aukinnar nettó landsframleiðslu á ári upp á 1,3 milljarða punda samkvæmt ritgerð Iains Mansfield „A Blueprint for Britain: Openness not Isolation“. en hann starfar sem framkvæmdastjóri viðskipta og fjárfestinga í sendiráði Bretlands á Filippseyjum.

Gert er ráð fyrir því í ritgerðinni að Bretland hefði aðgang að innri markaði Evrópusambandsins með hliðstæðum hætti og Sviss. Einnig leggur Mansfield áherslu á mikilvægi þess að Bretar væru ekki lengur hluti af innri markaðinum og gætu þar með stjórnað því hvaða löggjöf frá sambandinu samþykktu.

Með því að segja skilið við Evrópusambandið gætu Bretar fyrir vikið dregið verulega úr íþyngjandi regluverki sem í dag kæmi frá sambandinu og gert eigin viðskiptasamninga við ríki utan þess, meðal annars Kína og Bandaríkin sem og vaxandi efnahagsveldi í Asíu og Suður-Ameríku, sem aftur yrði til þess að utanríkisviðskipti Breta færðust í auknum mæli frá Evrópu og til nýmarkaðsríkja þar sem hagvöxtur væri mestur í heiminum.

Mansfield segir hins vegar í ritgerð sinni að í versta falli gæti úrsögn úr Evrópusambandinu þýtt 2,6% minni landsframleiðslu. Hann leggur ennfremur áherslu að ritgerðinni sé ekki ætlað að taka afstöðu með eða á móti því hvort Bretland eigi að ganga úr Evrópusambandinu. Það sé fyrst og fremst pólitísk spurning en ekki hagfræðileg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert