Forseti Úkraínu hótaði í dag að grípa til hernaðaraðgerða í kjölfar þess að stuðningsmenn Rússa, sem tekið hafa yfir stjórnarbyggingar í austurhluta landsins, neituðu að yfirgefa þær. Hópur uppreisnarmanna sem hliðhollir eru Rússum, réðust til atlögu við lögreglustöð á svæðinu í morgun.
Forsetinn Oleksander Turkinov sagði einnig koma til greina að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu í austurhluta landsins, m.a. til að svara kröfum íbúanna þar, sem flestir tala rússnesku, um aukið sjálfræði.
Forsetinn hafði gefið stuðningsmönnum Rússa frest til kl. 9 í morgun til að yfirgefa stjórnarbyggingarnar í borginni Slaviansk. Ekkert bendir til að þeir hafi farið að kröfum hans.
Í dag réðst að minnsta kosti 100 manna hópur að lögreglustöðinni í borginni Horlivka, samkvæmt frétt Reuters-fréttastofunnar. Einhverjir slösuðust í átökunum og voru sjúkrabílar á staðnum til að sinna slösuðum.
Forsetinn sagði að ef uppreisnarmennirnir myndu ekki leggja niður vopn yrði gripið til hernaðaraðgerða „til að koma á stöðugleika.“
Í kjölfar yfirlýsingar forseta Úkraínu hefur ótti við innrás Rússa á svæðið magnast.