Meira en helmingur íbúa Malasíu telja að ríkisstjórn landsins haldi eftir upplýsingum um týndu farþegaflugvélina. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem birt var í dag.
54% telja að ríkisstjórnin hafi ekki verið opinská um hvarf farþegavélarinnar. 1.000 íbúar landsins voru spurðir í könnuninni. Um 26% sögðu að ríkisstjórnin hefði sagt satt og rétt frá en 20% voru ekki viss.
Leit stendur enn yfir að farþegavélinni, 38 dögum eftir að hún hvarf af ratsjám á leið sinni frá Kulala Lumpur í Malasíu til Peking í Kína. Talið er að hún hafi brotlent í Indlandshafi.
Yfirvöld í Malasíu hafa ítrekað sagt að þau hafi ekkert að fela en þurfi aftur á móti að fara varlega í yfirlýsingar um stöðu mála.
Könnunin fór fram dagana 24. – 30. mars sl.