Segir Rússa vilja „kveikja í“ suðausturhlutanum

Liðsmenn vopnaðra sveita sem sækja andlega leiðsögn til Rússa við …
Liðsmenn vopnaðra sveita sem sækja andlega leiðsögn til Rússa við fána svonefnds Lýðveldisins Donetsk fyrir framan víggirðingar í Slavyansk í austurhluta landsins. mbl.is/afp

Oleksandr Túrtsjínov, starfandi forseti Úkraínu, sakaði Rússa í dag um tilraunir til að hleypa öllu í bál og brand í suðausturhluta Úkraínu með því að ýta undir aðskilnaðarsinna þar. Hefur hann stefnt her Úkraínu gegn sveitum hliðhollum Rússum sem grafið hafa um sig þar.

Yfirlýsingar Túrtsjínovs koma í framhaldi af „hreinskiptu“ samtali Baracks Obama Bandaríkjaforseta og Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta. Samtalið þykir litlu sem engu hafa skilað því Pútín hélt fast við þann keip, að Rússar hefðu engin tengsl við rússneskumælandi vopnasveitir sem lagt hafa undir sig ráðhús og lögreglustöðvar í um tíu borgum í Suðaustur-Úkraínu frá í byrjun mars.

Utanríkisráðherrar Evrópuríkja hafa ákveðið að bíða með harðari efnahagslegar refsiaðgerðir gegn Rússum í þeirri von að fyrirhugaðar viðræður um ástandið í Úkraínu í Genf á fimmtudag verði til að lægja öldur og draga úr spennu í landinu. Þar verður þess freistað að miðla málum í deilu stjórnvalda í Kænugarði og í Moskvu.

Heima fyrir virðist farið að draga úr stuðningi við bráðabirgðaleiðtoga Úkraínu. Óánægja með getuleysi úkraínskra hersveita til að ná aftur tökum á austurhluta landsins hefur brotist út og kveiktu nokkur hundruð manns til að mynda elda við þinghúsið í Kiev í gær og kröfðust þess að innanríkisráðherra landsins segði af sér.

Túrtsjínov virtist  koma til móts við óánægjuraddirnar með yfirlýsingu sinni í dag með því að leggja þunga áherslu á, að ganga yrði gætilega og af yfirvegun fram við að leysa upp vígi sveita vopnaðra Rússasinna og hrekja þá á flótta úr þeim.  

Liðsmenn vopnaðra sveita sem sækja andlega leiðsögn til Rússa standa …
Liðsmenn vopnaðra sveita sem sækja andlega leiðsögn til Rússa standa vörð við víggirðingar í Donetsk. mbl.is/afp
Víggirðingar sveita sem hliðhollar eru Rússum í Donetsk
Víggirðingar sveita sem hliðhollar eru Rússum í Donetsk mbl.is/afp
Rússneskumælandi Úkraínumenn hafa búið um sig í Donetsk í austurhluta …
Rússneskumælandi Úkraínumenn hafa búið um sig í Donetsk í austurhluta landsins og vilja ekki lúta yfirráðum stjórnvalda í Kiev. mbl.is/afp
Liðsmenn sveita rússneskumælandi aðskilnaðarsinna í Úkraínu við víggirðingu sem þeir …
Liðsmenn sveita rússneskumælandi aðskilnaðarsinna í Úkraínu við víggirðingu sem þeir reistu eftir að hafa tekið lögreglustöðina í Slavyansk í austurhluta landsins. mbl.is/afp
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert